140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er lagt til að Alþingi feli efnahagsráðherra við gildistöku laga þessara að skipa þriggja manna starfshóp til að meta árangur af framkvæmd laganna og skoða hvaða leiðir séu færar til að styrkja félagaform sparisjóða sem sjálfseignarstofnana. Ég hefði haldið að það væri ekki mikið vandamál fyrir hv. þingmenn að samþykkja þessa breytingartillögu ef við teljum að framkvæmdarvaldið eigi áfram að styrkja sparisjóðina í landinu. Því miður sé ég að þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysta sér ekki til þess að styðja þessa tillögu, ekki frekar en þá sem ég flutti áðan, og þingmenn stjórnarliðsins eru líka tregir í taumi, því miður segi ég vegna þess að ég tel að við þurfum að gera mun betur til að styðja við sparisjóðina í landinu og mér þykir miður að sjá að ekki sé meiri hluti fyrir þessari tillögu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)