140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:41]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. sá sem hér stendur og Ásmundur Einar Daðason, flytur örfáar breytingartillögur við þetta. Við erum fyllilega sammála rökstuðningi meiri hluta nefndarinnar en við teljum að tillögurnar sem fram komu samsvari ekki ákveðnum rökstuðningi þar, sérstaklega varðandi öryggi og viðhald. Við leggjum til að viðhaldsfjárhæðin verði aukin umtalsvert, við leggjum til að Hornafjarðarfljót verði brúað að nýju og vegurinn lagður þar. Þar er mikil slysahætta, ég kem betur að því síðar. Við leggjum fram tillögur um Veiðileysuháls og Bjarnafjarðarháls. Við leggjum til að aukið fjármagn verði sett til gerðar tengivega og breikkunar brúa og svo leggjum við til Reynisfjallsgöng á síðasta tímabili.

Allt eru þetta tillögur sem eru í fullum anda rökstuðnings meiri hluta samgöngunefndar.