140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæða um samgönguáætlun til fjögurra ára og á eftir um samgönguáætlun til 12 ára. Það er afar erfitt fyrir mig sem sjálfstæðismann að vera á móti framkvæmdaáætlun sem þeirri sem við ræðum hér. Ég mun taka afstöðu til þeirra tillagna sem fyrir liggja í atkvæðagreiðslunni á eftir en ég mun greiða atkvæði með þessari samgönguáætlun sem og 12 ára samgönguáætluninni. Það þýðir ekki að ég sé sátt við allt sem er innan þessara áætlana. Ég vil draga það fram að nýframkvæmdir á suðvesturhorninu hafa á síðustu þremur árum farið úr heilum 20% niður fyrir 10%. Ef svo vindur fram sem horfir verðum við þingmenn suðvesturhornsins að dusta rykið af gamalli hugmynd um sérstaka jarðganga- og stórframkvæmdaáætlun fyrir suðvesturhornið. Eftir sem áður er margt mjög jákvætt í samgönguáætluninni sem ég mun styðja en ég vildi vekja athygli á þessum þætti.