140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í breytingartillögum við fjögurra ára áætlunina er gert ráð fyrir verulegri aukningu til svokallaðra tengivega. Það er hins vegar galli á þessum tillögum að þær eru ekki útfærðar, það liggur ekki fyrir hvernig verja á þeim 900 milljónum á ári sem fara eiga til tengiveganna, hvernig á að skipta því milli einstakra verkefna og svæða.

Ég kallaði þráfaldlega eftir því í þessari umræðu hvort hugmyndin væri að byggja á því samkomulagi sem gert var í þáverandi samgöngunefnd Alþingis um að skipta þessu niður á grundvelli þess hvað eftir væri að byggja upp af tengivegum með bundnu slitlagi í einstökum umdæmum. Þar var til dæmis gert ráð fyrir að rúmlega 50% af tengivegafénu færu til Norðvesturkjördæmis, það var byggt á þeirri reiknireglu sem ég vísaði til. Ég ætla að treysta því að áfram verði stuðst við þá reglu. Ég harma að það skuli ekki koma skýrt fram í meirihlutaáliti en ég tel hins vegar að sú regla sem pólitískt samkomulag náðist um við afgreiðslu síðustu samgönguáætlunar hljóti þá að standa (Forseti hringir.) meðan henni verður ekki breytt.