140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eitthvert mikilvægasta byggðamálið í dag er að bæta samgöngur víðs vegar um landið. Í fjárlagavinnunni fyrir þetta ár, árið 2012, lögðum við framsóknarmenn til að settir yrðu fjármunir í að fækka einbreiðum brúm, laga tengivegi og síðast en ekki síst í jarðgangaframkvæmdir þannig að hægt yrði að bjóða út Norðfjarðargöng á þessu ári. Margt af þessu er komið inn og við fögnum því, og sérstaklega þessu með Norðfjarðargöng. Um leið er búið að eyða þeirri vitleysu að Vaðlaheiðargangaframkvæmdin standi þeirri framkvæmd fyrir þrifum.

Ég vil samt segja eitt, það sem einkennir þessa samgönguáætlun er metnaðarleysi. Það þarf að fara í stóraukið viðhald á vegakerfi landsins og ef það verður ekki gert af röggsemi og kappi á næstu árum mun það verða mjög kostnaðarsamt fyrir íslenska ríkið.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði mitt með (Forseti hringir.) samgönguáætlun en fara eins og aðrir eftir einstökum framkvæmdum eftir því sem við á.