140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil gera að umtalsefni, annars vegar tek ég undir það sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, að hlutur höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkur, er of lítill. Það eru augljósar framkvæmdir sem ég hefði viljað ráðast í á höfuðborgarsvæðinu sem ekki er farið í. Það gerir það að verkum að það þarf að ræða það alveg sérstaklega hér í þingmannahópi höfuðborgarbúa og velta því upp hvort ekki þurfi að grípa til einhverra aðgerða í framhaldinu.

En hitt er líka það og jafnvel öllu alvarlegra að hér er það útlistað hvernig eigi að eyða þessu veiðileyfagjaldi. Ekki er búið að ganga frá þeirri ákvörðun þannig að það á að byrja á því að ákveða hvernig á að eyða fjármunum áður en menn ákveða hvernig þeirra verður aflað. Þetta er öfug röð. Það sem meira er, það eru allar líkur og allt sem bendir til þess að sjávarútvegur muni illa standa (Forseti hringir.) undir þessu gjaldi í framtíðinni en hér er verið að leggja upp með áætlun til lengri tíma þar sem á að byggja á þessu gjaldi sem svo augljóslega er of hátt og mun ekki ganga upp.