140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um það sem ég leyfi mér að kalla hið sérkennilega plagg samgönguáætlun, þ.e. fjögurra og 12 ára áætlanir. Þetta plagg er búið að gera nánast marklaust gegnum tíðina með því að taka fram fyrir sérstök gæluverkefni einstakra þingmanna og ráðherra í eigin kjördæmum. Það er dapurlegt að hugsa til þess að öll sú vinna sem menn hafa lagt í samgönguáætlanir er þannig að hluta til fyrir borð borin. Samgönguáætlun tekur líka mið af því að kosningaár er fram undan og menn eru að fara heim í kjördæmin með samgönguáætlanir til að segja kjósendum sínum hvað þeir eru að koma heim með mikið malbik. Ég hefði kosið að sjá samgönguáætlanir á faglegri forsendum og að þessar gömlu kjördæmapotsaðferðir, sem hafa viðgengist svo lengi, væru lagðar af og að við stefndum hér inn í einhverja nýja tíma með afgreiðslu þingmála á faglegri grundvelli en þessum.

Þess vegna mun ég sitja hjá í atkvæðagreiðslu um þessa samgönguáætlun (Forseti hringir.) því að ég tel að hún sé meira og minna marklaus. (Gripið fram í.)