140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[11:57]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að leggja til að flýtt verði framkvæmdum við Bjarnarfjarðarháls norður í Bjarnarfjörð og veginn áfram norður Strandir. Að öðru leyti áfram líka norður í Árneshrepp um Veiðileysuháls. Það er lagt til að þegar verði hafist handa á árunum 2012–2013, annars vegar við Bjarnarfjarðarháls, um 250 milljónir, og hins vegar um Veiðileysuháls, 200 milljónir. Því verður svo áfram fylgt eftir 2014 með 250 milljónum í Bjarnarfjarðarháls sem ætti þá að vera lokið. Ég minni á að Bjarnarfjarðarháls var á framkvæmdaáætlun fyrir nokkrum árum og verkið tilbúið til útboðs og var þá fjármagnað en skorið niður vegna efnahagsráðstafana fyrir tveimur eða þremur árum. Áfram verði unnið við Veiðileysuháls árið 2014 þannig að íbúar í Árneshreppi fái í sýnilegum tíma raunhæfa áætlun og vilja Alþingis til að (Forseti hringir.) Árneshreppur komist í heilsárssamband. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Forseti hringir.) Ég legg áherslu á þetta, frú forseti, Árneshreppur á rétt á þessu. (Gripið fram í: Rétt. Rétt.)