140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:01]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Þessi tillaga fellur fullkomlega að rökstuðningi meiri hlutans um hagkvæmni, um öryggi í umferðinni og þar fram eftir götunum. Við í minni hlutanum leggjum til að framkvæmdum verði flýtt og þær hefjist árið 2014. Ný brú yfir Hornafjarðarfljót er mikil samgöngubót fyrir byggðarlagið og landið allt og ljóst að brýn þörf er á því að ráðast strax í þetta. Þetta er stytting á þjóðvegi 1 um 11 kílómetra og með þessu fækkar einbreiðum brúm um sex. Ég tek það sérstaklega fram að þeir sem hafa farið um þetta svæði, sem ég býst við að allir þingmenn hafi gert, og hafa farið yfir þær tvær brýr sem eru yfir Hornafjarðarfljót — það er niðurstaða allra að þessar brýr séu ekki á vetur setjandi og þær skapi hættu. Við eigum að fylgja sjónarmiðum um umferðaröryggi og hagkvæmni og byggðasjónarmiðum og segja já við þessari tillögu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)