140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er lokaatkvæðagreiðsla um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014. Ég fagna því sérstaklega sem sjá má hér á töflum að sú áætlun verður samþykkt samhljóða með nokkrum aðilum sem sitja hjá. Þetta er ánægjulegt og mjög í takt við það að síðasta samgönguáætlun og þarsíðasta, sem hét viðauki við samgönguáætlun, fékk álíka meðferð á Alþingi og var samþykkt með mikilli samstöðu. Því fagna ég alveg sérstaklega.

Eins og kom fram í atkvæðaskýringu minni áðan er þessi samgönguáætlun orðin mjög metnaðarfull vegna vinnu umhverfis- og samgöngunefndar og breytinga sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og hér eru settar fram, m.a. út af tilkomu veiðileyfagjaldsins en rætt hefur verið um að stór hluti þess fari í að bæta innviði úti á landi.

Virðulegi forseti. Nýlega bárust fréttir frá Bolungarvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Vestmannaeyjum, Vopnafirði og fleiri stöðum um fasteignaverð þar hafi rokið upp. (Forseti hringir.) Það kom mér ekki á óvart, það er vegna stórkostlegra samgöngubóta sem hafa orðið til þeirra staða og nú munu fleiri staðir fá að njóta í þessari metnaðarfullu áætlun.

Ég segi já.