140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:29]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir orð hæstv. innanríkisráðherra um undirbúning að gerð vegáætlunar, samgönguáætlunar. Þeirri faglegu vinnu var fram haldið í samgöngunefnd og allir sem hér hafa komið að málum eiga hrós skilið og ég frábið mér allt tal um kjördæmapot varðandi breytingartillögur. Það sést á tillögum minni hlutans að svo er ekki.

Það er einn stór galli á samgönguáætlununum, bæði til fjögurra ára og 12 ára, það er hvað naumt er skammtað til viðhalds samgöngumannvirkja sem þegar hafa verið byggð. Það blasir við að á þessum árum muni þessi samgöngumannvirki drabbast niður enn frekar til stórtjóns fyrir samfélagið. Þess vegna gerði minni hlutinn það að tillögu sinni að lagt yrði verulega í viðhaldið. Ég mun gera kröfu til þess hér á eftir að það verði sératkvæði um þann lið og auk þess um Hornafjarðarfljót.