140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið er þessi áætlun frekar afturhlaðin. Það er gert ráð fyrir því að á síðasta tímabilinu sé mestur þunginn á samgönguframkvæmdir. Ég hef bent á það bæði í umræðu og í nefndinni og í dag við þessa atkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin er ekki að skila þeim gríðarlegu tekjum sem hún tekur út á umferðina í landinu aftur til samgönguúrbóta. Það eru einungis um 30% af þeim gríðarlegu skatttekjum sem fást af skatti á umferðina og eldsneytið sem skila sér til samgöngumannvirkja. Þess vegna hefði verið rétt að deila þessum verkefnum betur út og þá hefðum við séð meiri framkvæmdir á fyrsta og öðru tímabili. Við hefðum þá fært framkvæmdirnar fram og um leið væri ríkisstjórnin að skila þeim tekjum sem hún tekur af eldsneytinu aftur út í samfélagið. Þetta hlýtur bara að þýða eitt, frú forseti, (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hlýtur að vera að undirbúa það að lækka skatta á eldsneyti.