140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Seyðfirðingar hafa barist fyrir því um áratugaskeið að göng undir Fjarðarheiði verði að veruleika eins og Þorvaldur Jóhannsson, fyrrverandi bæjarstjóri þeirra, hefur bent á með greinaskrifum sínum. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með þann þverpólitíska stuðning sem myndast hefur við það mál, að nú eigi að ráðast í nauðsynlegar rannsóknir til að af þessari framkvæmd geti orðið í framtíðinni. Seyðisfjörður er inngangur landsins í gegnum Norrænu, þúsundir ferðamanna koma og fara yfir erfiðan fjallveg snemma á vorin og oft á vanbúnum bílum. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og það er með mikilli ánægju sem ég segi já við þessari tillögu sem ég er meðflutningsmaður að og það er gott að finna þann breiða samhljóm og þá samstöðu sem hefur myndast um þetta mál.