140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um að auka fjármagn til viðhalds á samgöngumannvirkjum vítt og breitt um landið. Við vinnslu samgönguáætlunar í umhverfis- og samgöngunefnd komu fram miklar áhyggjur manna af því að ekki væri varið nægilegu fjármagni til viðhalds á vegum landsins. Menn hafa talað um að á síðustu fimm, sex árum hafi einungis um 40% af því fjármagni sem væri lágmark að þyrfti til viðhalds samgöngumannvirkja verið veitt í þennan málaflokk. Það liggur alveg ljóst fyrir að með þessu erum við að spara aurinn og kasta krónunni því að eftir því sem vegakerfið eldist verður gríðarlegur skellur fyrir ríkissjóð þegar samgöngumannvirki fara að versna mun meira. Það er mjög mikilvægt og þetta er eitt af þeim grunnatriðum (Forseti hringir.) sem ætti að vera sátt hér um, þ.e. að auka fjármagn til viðhalds vega mun meira en gert er ráð fyrir í (Forseti hringir.) samgönguáætluninni.