140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að greiða atkvæði um samgönguáætlun. Ég hef hér í dag fylgt forustu nefndarinnar enda hefur hún unnið málið ítarlega og vandlega. Sem formaður fjárlaganefndar hef ég kynnt mér stöðu samgönguáætlunar og komist að því að hún er einhvers konar óskalisti þingmanna um samgöngumál í héraði og breytingartillögurnar endurspegla skilaboð þingmanna heim í kjördæmi um að þeir hafi ekki gleymt sínu fólki. [Kliður í þingsal.] Þar sem fjárlög ganga framar samgönguáætlun erum við óbundin af áætluninni við gerð fjárlaga hvað varðar tímasetningar þó að forgangsröðun liggi ljós fyrir.