140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Magnús M. Norðdahl) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar sem um þetta mál fjallaði. Nefndin fékk á sinn fund fjölda gesta sem fóru yfir þetta mál með okkur og til upprifjunar er það þannig að í b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar sem voru á sínum tíma gerðar til bráðabirgða með lögum nr. 55/2011 sem breyttu lögum nr. 98/1999 verði teknar upp í meginmál laganna. Það er lagt til að iðgjöld verði samtala almenns iðgjalds og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls, gjalddagar verði fjórum sinnum á ári og iðgjöldin innt af hendi í íslenskum krónum eins og greiðslur úr sjóðnum sem verði í íslenskum krónum. Frumvarpsgrein þessi mælir líkt og núgildandi ákvæði til bráðabirgða fyrir um framkvæmd innheimtu iðgjaldsins, heimild til endurgreiðslu þess vegna ofgreiðslu, upplýsingagjöf innlánsstofnana og afleiðingar þess að henni er ekki sinnt eða iðgjöld ekki greidd á réttum tíma.

Helstu breytingarnar sem koma fram í frumvarpsákvæðinu frá gildandi bráðabirgðaákvæði eru þær að almenna iðgjaldið er lækkað úr 0,3% í 0,235%. Raunar er það tillaga efnahags- og viðskiptanefndar að þetta iðgjald verði 0,225% en ekki 0,235%. Síðan er skilgreiningu hugtaksins innstæða breytt en um síðarnefndu breytinguna vísast nánar til 5. gr. frumvarpsins. Þar er jafnframt gerð sú tillaga, frú forseti, að það er ákveðið eftir samtöl við þá gesti sem fyrir nefndina komu að hafa skilgreininguna óbreytta frá því sem er í núgildandi lögum og nefndin flytur því breytingartillögu í þá veru þannig að þessari skilgreiningu verði ekki raskað.

Tryggingarsjóðurinn mun síðan samkvæmt a-lið 2. gr. og 7. gr. frumvarpsins starfa framvegis í þremur sjálfstæðum deildum og munu iðgjöld samkvæmt núgildandi ákvæði til bráðabirgða og framtíðariðgjöld renna til A-deildarinnar. Í nefndinni var einnig rætt nokkuð mikið um þá endurskoðun sem stendur yfir á Evrópuvettvangi á innstæðutryggingum almennt. Þar var sérstaklega fjallað um það hvernig við gætum búið okkur undir það og í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Komið hefur fram að almennt hafi innstæðutryggingakerfin ekki verið sniðin að því að standa undir falli heils fjármálakerfis. Í Icesave-málinu, sem bíður dóms EFTA-dómstólsins, verður skorið úr um hverjum standi næst að bera ábyrgð gagnvart innstæðueigendum þegar slíkt gerist. Leggur nefndin áherslu á sérstöðu Íslands og mikilvægi þess að fá hana viðurkennda. Er í því sambandi lögð áhersla á að ríkisstjórnin, fyrir upphaf haustþings 2012, hafi skýrt sérstöðu Íslands og greint með hvaða hætti megi taka tillit til hennar. Verði afraksturinn kynntur fyrir nefndinni og í framhaldi fyrir fulltrúum ESB.“

Þetta er í sem allra stystu máli nefndarálitið sem talar að sjálfsögðu að mestu leyti fyrir sig sjálft en eins og ég sagði eru lagðar til tvær breytingar, aðallega um lækkun gjaldsins úr 0,235% í 0,225% og síðan lagt til að skilgreiningin í 5. gr. verði óbreytt frá því sem nú er. Breytingar sem gerðar eru á 7., 8. og 9. gr. eru ekki efnisbreytingar.

Undir þetta nefndarálit skrifa síðan allir nefndarmenn en nokkrir þó með fyrirvara, þau Guðlaugur Þór Þórðarson, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir