140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

útlendingar.

709. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil hér gera grein fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, vegna innleiðingar tilskipunar á reglum Evrópusambandsins, og fyrirsvar vegna útgáfu vegabréfsáritana og réttaraðstoð við hælisleitendur.

Hæstv. forseti. Það er rétt að geta þess að allsherjar- og menntamálanefnd fékk frumvarpið til afgreiðslu með stuttum fyrirvara og hafði skamman tíma til að vinna í málinu. Það er orðinn nokkuð langur aðdragandi að því að þetta frumvarp og þessi breytingartillaga komi fram um tilskipanir um vegabréfsáritanir og réttaraðstoð við hælisleitendur, meira en tvö ár. Það kemur til vegna þess að Frakkland sem hefur séð um vegabréfsáritanir fyrir Íslands hönd í fjölmörgum ríkjum, þá sérstaklega Afríkuríkjum, hefur breytt vinnureglum sínum og tekið upp sömu afgreiðslu á öllum vegabréfum, hvort sem þau eru frönsk eða frá öðrum löndum.

Það hefur verið leitað eftir samkomulagi við Frakkana um að halda því fyrirkomulagi sem verið hefur þannig að Ísland fái ekki til afgreiðslu þær umsagnir sem einhver vafi leikur á. Þær umleitanir hafa hins vegar ekki náð fram að ganga og því er leitað eftir heimild til að fela Frökkum að fara með þetta umboð.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á fund sinn Arndísi Önnu Gunnarsdóttur frá innanríkisráðuneyti sem fór mjög vel yfir málið með nefndinni. Breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þríþættar. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til að gera samninga við erlend ríki þar sem þeim er veitt heimild til að synja um útgáfu vegabréfsáritunar fyrir Íslands hönd. Í öðru lagi er opnað fyrir heimild innanríkisráðuneytisins til að greiða fyrir réttaraðstoð við hælisleitendur frá fyrstu stigum málsmeðferðar þeirra fyrir íslenskum stjórnvöldum og byggja þannig betur undir lagagrundvöll núverandi framkvæmdar. Loks eru með frumvarpinu lagðar til breytingar er lúta að innleiðingu svokallaðrar búsetutilskipunar 2004/38/EB um frjálsa för.

Þrátt fyrir stuttan tíma í vinnu nefndarinnar við að fara yfir málið er undirbúningur ráðuneytisins umtalsverður og því er það mikið hagsmunamál fyrir Ísland að geta einhvern veginn afgreitt beiðni um vegabréfsáritanir til Íslands. Þetta er sú eina leið sem hefur náðst að tryggja þannig að fólk þurfi ekki að fljúga eða fara á milli heimsálfa til að sækjast eftir vegabréfsáritun til Íslands.

Það er mín persónulega skoðun að þeir samningar sem verða gerðir við Frakkland vegna þessa og á þessum réttu forsendum eigi að vera stuttir til að byrja með. Við verðum að sjá hvernig þetta reynist enda verði þeir uppsegjanlegir ef þetta fyrirkomulag reynist með öðrum hætti en vonast er til.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Þráinn Bertelsson, Lúðvík Geirsson, sú sem hér stendur og Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Ég og fleiri höfðum óskað eftir því að framsal stjórnsýsluákvarðana yrði skoðað en yfir það hefur ráðuneytið farið og ég tel að með þeim samningum sem í hönd fara verði það skoðað mjög vel.