140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flytur og er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Við 10. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Ákvæðið fellur úr gildi að liðnum fimm árum frá gildistöku.“

Þessi breytingartillaga er samhljóða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem ég var 1. flutningsmaður að. Aðrir flutningsmenn voru hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Jón Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Róbert Marshall, Björn Valur Gíslason og Ásmundur Einar Daðason.

Þetta er með öðrum orðum frumvarp sem var flutt í þverpólitískri sátt. Þingmenn allra flokka stóðu að því frumvarpi nema fulltrúar Hreyfingarinnar á þeim tíma en þau hafa ekki sýnt neina andstöðu við þetta mál.

Tilefni þess frumvarps er að til staðar er tiltekin tækni sem kallast varmadælutækni og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara efnislega yfir hana. Ég gerði það þegar ég mælti fyrir frumvarpinu. Verði þessari tækni beitt, og henni er auðvitað beitt nokkuð í dag, er talið að hún gæti lækkað mjög verulega húshitunarkostnað á þeim svæðum þar sem hann er þyngstur. Þetta mundi líka hafa það í för með sér að það drægi úr orkunotkun sem út af fyrir sig er líka jákvætt að því leytinu að þar með gætum við nýtt þá orkuframleiðslu sem í dag fer meðal annars í að hita upp húsnæði til að selja annað sem væntanlega drægi þá úr fjárfestingarþörf í orkukerfinu okkar að öðru leyti. Það mundi væntanlega stuðla að einhverju slíku. Mér sýnist þetta mestanpart jákvætt mál. Gallinn er hins vegar sá að það er talsverður stofnkostnaður því samfara að kaupa þessar varmadælur og þess vegna var hugsunin með frumvarpinu, nú breytingartillögunni, sú að heimila endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á þeim. Þessar dælur bera núna 25,5% virðisaukaskatt og þess vegna er ljóst að þetta gæti dregið úr kostnaði og þá væntanlega stuðlað fremur að því að menn færu í þessar aðgerðir sem hefðu þau áhrif sem ég var að tala um.

Ég vek líka athygli á því að þessar dælur bera önnur gjöld sem eru hins vegar reglugerðarmál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur þá í hendi sér að breyta ef hæstv. ráðherra kýs að gera svo. Ef þetta mál yrði afgreitt mætti vænta þess að það gæti þá líka fylgt í kjölfarið og þar með myndast raunverulegur hvati hjá almenningi og fyrirtækjum til að útbúa sig með þessum varmadælum.

Ég vek athygli á því að þetta mál var fyrst flutt á 139. löggjafarþingi og nú er 140. löggjafarþing. Þá var málinu ákaflega vel tekið í þingsölum og allir sem tóku til máls fögnuðu því og hvöttu til þess að það yrði samþykkt. Málið var síðan ekki afgreitt út úr efnahags- og viðskiptanefnd á þeim tíma. Það var endurflutt 5. október sl. og mælt fyrir því 3. nóvember. Það var tekið fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd 7. nóvember, umsagnir sem hafa komið um málið eru allar jákvæðar og í þeim anda sem ég hef verið að gera grein fyrir. Því miður auðnaðist nefndinni ekki að afgreiða málið frá sér og þess vegna hefur verið brugðið á það ráð að leggja það fram sem breytingartillögu við þetta mál sem nú er verið að afgreiða. Ég vek athygli á því að fleiri breytingartillögur, ekki endilega samkynja því frumvarpi sem hér er verið að ræða, eru líka til umfjöllunar eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanns sem talaði næst á undan mér.

Ég tel að um þetta mál þurfi ekki að verða neinn pólitískur ágreiningur. Eins og ég hef nefnt er þetta mál sem fjölmargir þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa staðið að með þeim hætti sem ég hef áður gert grein fyrir. Það mun stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar sem hefur verið mikið kallað eftir á köldum svæðum og þetta mun spara rafmagn og orku þannig að ég tel að þetta sé jákvætt mál sem veldur ríkissjóði heldur ekki kostnaði. Þetta mun væntanlega leiða til þess að fleiri fara í fjárfestingar á varmadælum en ella og þá er gert ráð fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskattinum sem yrði væntanlega heldur ekki greiddur ef menn fara ekki í þessa fjárfestingu sem er tregða til að gera núna vegna stofnkostnaðarins. Ég vek líka athygli á því að meðal annars íslenskir aðilar framleiða þessar dælur. Þeir hafa tjáð mér að núna sé nokkur tregða í kaupum á þeim vegna þess að þetta mál hefur verið lagt fram á Alþingi og þess vegna skapað einhverjar væntingar hjá almenningi sem er að velta þessum málum fyrir sér og hefur kosið að bíða með fjárfestingar í varmadælunum þangað til fyrir liggur hvernig þessu máli reiðir af.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum vildi ég fylgja úr hlaði þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur flutt við þetta frumvarp.