140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er ákaflega athyglisvert mál sem þau flytja, hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Birkir Jón Jónsson, sem ég þekki að góðu einu, mikið framfaramál ef til kæmi að losa um skattböndin á þessari gerð af bleium.

Virðisaukaskattslögin missa hins vegar nokkuð gildi sitt ef í þau fara mjög margar holur. Ég spyr því hv. þingmann hvaða skilgreiningu honum finnst þurfa á það skattandlag sem fari niður í 7%. Þarna er til dæmis um að ræða vörur fyrir börn. Finnst honum þessi vara öðruvísi en barnavagnar eða barnamatur? Er það sem sé tengingin við náttúruverndina og umhverfisstefnuna sem þarna skiptir máli, að það þurfi að uppfylla hvort tveggja, vera sem sé fyrir börn og vera umhverfisvænt og verðskuldi þá að fara niður í 7% skatt?

Þetta er alltaf svolítið erfitt. Þegar maður lítur yfir undantekningarnar, þær sem nú gilda og þær sem hafa gilt, bæði hér og annars staðar, eiga menn í erfiðleikum með þetta. Ég var einhvern tíma að spekúlera í þessu, að ég held á níunda áratugnum, og kom nálægt svari frá fjármálaráðherra við fyrirspurn frá þinginu um hvernig þetta stæði í löndum Evrópusambandsins. Ég man eftir því sérstaklega að á Írlandi voru skrautlaus kerti með mjög lágan skatt en það átti ekki við annars staðar. Það var hið kaþólska land sem taldi að skrautlaus kerti til notkunar í kirkjum ættu að vera lágsköttuð og ég spyr: Af hverju eru skrautlaus kerti til notkunar í kirkjum ekki með lægri skatt á Íslandi? Getur hv. þingmaður svarað því? Ef hv. þingmaður telur það óeðlilegt, er hann þá ekki á móti kirkjum og trúarlífi í landinu? Af hverju er þetta ekki eins og á Írlandi? Verður ekki líka að uppfylla það skilyrði að þær vörur sem fara í 7% skattinn nýtist trúarlífinu í landinu? Eða hvaða skilyrði eru það sem hv. þingmaður vill að vörurnar uppfylli?