140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég styð það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er ekki alfarið um tæknileg efni heldur það hvernig sveitarfélög og ríkisvald skipta með sér kostnaði við ökutæki, tækjabúnað og hlífðarfatnað vegna slökkvistarfa og fleira af því tagi og svo það skref sem hér á að stíga í takmarkaðan tíma til að bæta bílaflotann í landinu, gera hann umhverfisvænni með því að setja í lægri virðisaukaskattsflokk þá bíla sem annaðhvort nota ekki jarðefnaeldsneyti eða nota það meðfram öðru eldsneyti, tvinnbíla og aðra slíka. Þetta er ekki í sama flokki, þetta eru tveir opinberir aðilar að eiga hvor við annan um kostnað. Það sem ég lýsti áðan er að það er verið að reyna með skattalegum hætti að hvetja til breytinga á neyslumunstri, umhverfinu í hag í þetta skipti, og ég tel að þetta séu hvort tveggja nánast sjálfsagðar breytingar í þessu efni.

Mig langaði til að ræða hér, og ætla að gera, um þær breytingartillögur sem fram eru komnar, annars vegar þá tillögu sem við hv. þm. Birkir Jón Jónsson vorum að ræða áðan. Ég vil bæta því við það sem þar var sagt að ég hvet þingmanninn eindregið til þess áður en þessari umræðu lýkur að bera fram breytingartillögu við sína eigin breytingartillögu um að þessi nýskipan gildi í ákveðinn tíma, t.d. fimm ár. Í hinni breytingartillögunni er lagt til að þetta séu fimm ár. Þingmaðurinn gæti lagt til tíu ár eftir atvikum þannig að menn viti að þetta fellur úr gildi. Seljendur og áhugamenn um breytta bleiunotkun geta þá notað þann tíma til að breiða út hina réttu tegund af bleium. Hér brosir hv. þm. Lúðvík Geirsson en þetta er ekkert hlægilegt. Auðvitað er það rétt hjá flutningsmönnum að þessar einnota bleiur í miklum umbúðum valda verulegum umhverfisspjöllum og venja okkur við lausnir sem ekki eru heppilegar á þeim tímum sem við erum núna að fara inn í — tel ég, vona og held — frá ofneyslusamfélaginu og græðgissamfélaginu og inn í skynsamlegra samfélag sem berst gegn umhverfisvá sem er okkar helsti vandi, hvað sem líður kreppum sem standa vonandi í skamman tíma, og að við reynum að bæta bleiubúskap okkar og nota margnota bleiur sem vel er hægt án þess að menn þurfi að rifja upp margs konar starfa og ekki allan mjög lyktvænan við þetta. Það eru komnar nýjar tegundir af margnota bleium og bleiufóðri sem hér er talað um sem gera verkið auðveldara.

Ég vil segja um hina tillöguna sem er líka alveg ágæt að þar á að binda gildistíma ákvæðisins í fimm ár til að gera mönnum það auðveldara að kaupa varmadælur og tengdan búnað og útbreiða hann. Þetta er út af fyrir sig ágæt hugsun og í samræmi við það sem ég hef áður sagt. Það sem vekur athygli, forseti, við þetta mál, og ég bið forseta að leggja eyrun við, bæði þann sem hér situr og þá sem annars staðar eru í húsinu, aðalforsetann líka, og þingflokksformenn, er að þessi tillaga var lögð fram í gær, 18. júní. Það er ekkert leyndarmál að hún er breytingartillaga sem smíðuð er upp úr sérstöku þingmáli á þskj. 32, 32. máli, og hefur verið í þinginu sennilega frá því í október. Hún er núna lögð fram 18. júní en þingmálið sjálft er þar statt sem það fór eftir 1. umr. sem ég hef ekki kynnt mér hvenær var en hygg að hljóti að hafa verið í október eða nóvember og hefur ekki verið afgreitt út úr nefndinni. Ég tel þetta alveg á jaðri þess sem hægt er að sætta sig við að sé gert á síðustu dögum þingsins og þó að málið sé gott verðskuldar það ekki að því sé greitt atkvæði eða því hjálpað hér til.

Það er líka sérkennilegt að framsögumaður þess hér, þó að hann sé ekki flutningsmaður, er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem einmitt núna gegnir störfum formanns þingflokks sjálfstæðismanna. Þingflokksformenn hafa ákveðið í samráði við forseta þingsins og væntanlega aðra forustu í þinginu að engin þingmannamál skuli tekin fyrir á lokasprettinum — nema eitt. Og frá hverjum skyldi það mál vera? Jú, það er frá öðrum þingflokksformanni, nefnilega Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Það er mjög óvenjulegt að þetta skuli gert vegna þess að undanfarin mörg ár hafa nokkur þingmannamál verið tekin fyrir á síðustu dægrum og dögum þingsins sem allir voru sammála um og sem búið var að afgreiða út úr nefnd og menn spurðir hvort við ættum ekki að samþykkja þessi mál sem þörf og góð mál sem einstakir menn hafa beitt sér fyrir og fengið aðra í lið með sér á þinginu til að koma í umræðu.

Nú vill svo til, forseti, að nokkur slík mál liggja fyrir, tillögur og frumvörp. Það liggja fyrir sex frumvörp af þessu tagi og níu tillögur sem hafa verið afgreiddar úr nefnd, allt á mismunandi tíma. Sumt af því er reyndar frá því í júní, hefur verið afgreitt á síðustu dögum en þá í þeirri von að það gæti haldið áfram í þinginu. Annað er eldra og nokkur mál eru frá því í lok apríl. Ég held að það séu elstu málin. Sum þurfa hugsanlega meiri umræðu en hægt er að veita þeim hér. Ég tek sem dæmi ágætt mál um ætlað samþykki við líffæragjafir sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flytur. Ég er líka einn af flutningsmönnum þess. Það þarf kannski meiri umræðu í þinginu og jafnvel í samfélaginu. Önnur eru þannig að ekki er um þau full sátt á þinginu og við þessar aðstæður er kannski ekki hægt að ætlast til þess að þeim sé hleypt í umræðu við þinglok því að ekki eru þær aðstæður uppi. Þau hefðu þurft að koma fram fyrr og þau koma þá fram næsta vetur en ég tel ein fimm eða sex mál þar sem ekkert er í veginum fyrir því að taka málin áfram, leggja þau fram og athuga hvort þingmenn eru sammála um þau og þá ekki sem breytingartillögur við önnur mál heldur sem sjálfstæðar tillögur.

Ég skal nefna málin, forseti, þau sem mér sýnist við stutta rannsókn vera svona. Það er mál hv. þm. Árna Johnsens um aðgengi að hverasvæðinu við Geysi. Það er mál mitt og fleiri þingmanna, sem ágætir eru, um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun. Ég nefni líka mál hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi. Ég nefni frumvarp hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar um húsaleigubætur til námsmanna. Það mál á fullt erindi í salinn. Ég nefni mál Árna Þórs Sigurðssonar, það er auðvitað smátt en gilt, um áheyrnarfulltrúa í landskjörstjórn og yfirkjörstjórn fyrir hönd þeirra framboða eða flokka sem ekki hafa marga fulltrúa á þingi en eiga auðvitað sinn rétt þrátt fyrir það. Ég nefni basarmatarmál hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar sem við höfum greinilega ekki afgreitt. Málið heitir matvæli (tímabundið starfsleyfi). Ég nefni frumvarp hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um skuldaeftirgjafir í tengslum við tekjuskatt en veit þó ekki að fullu hvort samstaða er um það mál eða einhvers konar ágreiningur í nefndinni.

Ég ákvað að nefna þetta því að til þess gefst ekki tækifæri í fullum friði undir liðnum um fundarstjórn forseta eða álíka umræðum því að ég er óánægður með að þetta skuli vera svona og tel að þingflokksformenn, forseti þingsins og aðrir forustumenn eigi að taka þetta upp, fara yfir þau mál sem ég nefndi og er auðvelt að finna önnur svipuð, þau sem ég nefndi ekki vegna þess að mér fannst vera á þeim einhvers konar tæknilegir eða pólitískir vankantar, ekki á málunum heldur á samstöðu um þau hér, fara yfir þau og gera sitt til þess að greiða fyrir lokum þingstarfa og koma einhverjum af þessum málum á dagskrá. Og ég geri það hér vegna þess að hér er flutt ágætt þingmál sem í staðinn fyrir að komast í gegnum nefnd og í umræðu eins og það á skilið er það flutt sem breytingartillaga við allt annað mál þó að það varði líka virðisaukaskatt. Það eru í raun ekki viðunandi vinnubrögð.

Þar með læt ég lokið máli mínu en ítreka áskorun mína til þeirra hv. þingmanna Lilju Mósesdóttur og Birkis Jóns Jónssonar um að hraða sér við breytingartillöguna því að hún má ekki koma fram síðar en fyrir umræðulok í dag. Ég ítreka að að minnsta kosti 1/63 hluti af salnum er alvarlega að íhuga stuðning við hið mikla framfara- og þarfamál þeirra ágætu þingmanna sem ég nefndi áðan.