140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[16:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þessi vanburða tilraun mín til að andæfa hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og ekki síður meðflutningsmanni hans, Lilju Mósesdóttur, er að kafna í fæðingu því að rökfimi hv. þingmanns er slík að hann tekur mín eigin rök og snýr þeim upp á mig með þeim hætti að ég get í raun ekki annað en bara skammast mín hér í ræðustólnum. Ég bíð enn eftir því tækifæri að ég fái þá hugljómun að ofan og handan að ég gangi á hönd þessum fríða flokki hv. þingmanna í bleiumálinu. [Hlátur í þingsal.]

Það síðasta var auðvitað þetta um 500 ára eyðingartíma bleia sem er þannig, forseti, að bleian af Agli Skallagrímssyni hefði eyðst einhvern tímann á 16. öld (Gripið fram í.) og bleian af Jóni Arasyni væri enn þá í jarðveginum að trufla okkur. Ég verð að segja að þetta væri ekki geðslegur arfur frá forfeðrunum og við eigum ekki að skilja þennan arf eftir handa fólki á 26. öldinni sem lítur til okkar tíma. Þá eiga ekki að finnast bleiur af hv. þingmönnum Birki Jóni Jónssyni og Merði Árnasyni á víðavangi, lyktandi og eyðileggjandi umhverfi þeirra sem þá ganga um tún og fara á fjöll.

Ég tel að það sé einsýnt að ég endi með því að styðja þessa tillögu þeirra félaga, hinna ágætu hv. þingmanna, enda beri þeir hið bráðasta fram þá breytingartillögu sem um var talað.