140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ræð því ekki um hvað hv. þm. Mörður Árnason biður. Hann getur lagt fram tillögu um að vísa málinu til allsherjar- og menntamálanefndar ef hann kýs svo. Það reynir síðan á það í þingsal hvort stuðningur er við tillögu hv. þingmanns, ég tel það óþarfa.

Mér var bent á það meðan hv. þingmaður talaði að rekstrarskrifstofa Alþingis teldi að sú breyting sem hér er á ferðinni muni þegar allt kemur til alls sennilega koma út á núlli og jafnvel séu þarna þættir sem geta sparað. Ég treysti mér ekki til að fullyrða um það. Ég vek eingöngu athygli á því að þær breytingar sem hér um ræðir hafa að jafnaði engin áhrif á starfskjör flestra þingmanna en í ákveðnum tilvikum, svo sem ef veikindi koma upp eða í tilviki fæðingarorlofs, kann að vera um að ræða um aukinn kostnað. Það sama á við um varamannaregluna en þar kann að vera bæði plús og mínus, eitthvað sparar, annað eykur kostnað.

Ef hv. þingmaður er ósáttur við þau svör verður bara við það að lifa.