140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil gera að umtalsefni 3. gr. þessa frumvarps sem lýtur að meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á ýmsum skýrslum og samspil málsins við verkefni fjárlaganefndar. Í merkri niðurstöðu sem fjárlaganefnd komst að haustið 2011, þar sem allir nefndarmennirnir níu voru sammála um álit sem við gáfum til þingsins um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009, fjölluðum við sérstaklega um hlutverk fjárlaganefndar. Við undirstrikuðum í samhljóða áliti nefndarinnar að með nýjum þingskapalögum sem samþykkt voru í júní 2011 hefði verið lögð áhersla á eftirlitshlutverk fjárlaganefndar með framkvæmd fjárlaga. Markmiðið með þessum breytingum var að stuðla að auknum aga í fjárlagaferlinu öllu.

Í ljósi þeirra breytinga og þeirrar stuttu reynslu sem fengist hafði á þessi nýju þingskapalög gerði fjárlaganefndin svohljóðandi bókun í áliti sínu sem ég vil fá að vitna til, með leyfi forseta. Það hljóðar svo:

„Fjárlaganefnd leggur áherslu á skýra verkaskiptingu milli fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Eins og fram kemur í nýjum þingskapalögum hefur fjárlaganefnd eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Nefndin leggur til að komi upp mál sem stangast á við lög og reglugerðir og eru alvarlegs eðlis þá verði þeim vísað eftir umfjöllun fjárlaganefndar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar. Önnur mál er varða eftirlit með framkvæmd fjárlaga verði fullnustuð af fjárlaganefnd.“

Því hefur hvorki verið breytt í meðförum stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar í vinnunni né heldur er það frumvarp til laga að nýjum þingsköpum mjög afdráttarlaust í þessum efnum, þ.e. með þessi skýru skil, þó svo að í greinargerðinni með frumvarpinu segi um 3. gr., þar sem reynt er að skipa þessum verkefnum með þeim hætti sem þar greinir, að við yfirferð nefndarinnar hafi komið í ljós að margar af skýrslum Ríkisendurskoðunar eigi betur heima í umfjöllun í öðrum nefndum, ekki síst í fjárlaganefnd, en í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sú breyting sem hér er kveðið á um af hálfu þingskapanefndar heimilar í raun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ef henni sýnist svo, að vísa málinu til fjárlaganefndar eða eftir atvikum til annarra nefnda. Það er sem sagt lagt í mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hvort það skuli gert. Rökstuðningurinn fyrir því er sá að það fyrirkomulag tryggir, eins og sagt er í greinargerðinni, hin beinu tengsl stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við Ríkisendurskoðun og gerir henni fært að hafa yfirlit yfir eftirlitsstörf Ríkisendurskoðunar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé í rauninni betra að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hagi eftirlitinu með Ríkisendurskoðun þannig að kalla eftir yfirliti um störf hennar fremur en að skikka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara í gegnum allar hinar mismunandi skýrslur á hinum mismunandi fagsviðum viðkomandi fagnefnda þingsins. Ég held að eftirlitinu sé betur sinnt með þessum grunnþáttum í úttekt Ríkisendurskoðunar í viðkomandi fagnefndum og síðan geri þær stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni viðvart eftir atvikum ef þær rekast á einhver atriði. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að Ríkisendurskoðun eigi að geta gert stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni beint aðvart ef eitthvað er athugavert í störfum þeirra stofnana sem Ríkisendurskoðun rekst á í vinnu sinni.

Ég vildi nefna það sérstaklega vegna þess að um þessar áherslur hefur verið alger samhljómur innan fjárlaganefndarinnar. Ég met það svo að þeim sjónarmiðum sem fjárlaganefndin hefur sett fram í þessum efnum hafi ekki verið mætt til fulls. Ég vænti þess þó að þegar málið verður rætt frekar muni menn reyna að mæta þeim sjónarmiðum sem fjárlaganefndin telur nauðsynleg til að tryggja að hún hafi meira inngrip í það eftirlitshlutverk sem henni er falið að lögum.

Vegna þess sem upp kom í umræðu áðan um 29. gr. þess frumvarps sem hér liggur fyrir varðandi lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað hefði ég álitið nauðsynlegt í þeirri vinnu sem fram undan er varðandi þær breytingar sem rætt er um í þeim efnum að taka á þeim mun sem orðinn er á starfskjörum alþingismanna þegar við horfum upp á að 13–14 alþingismenn af þeim 63 vinna við allt önnur kjör en þeir 49 eða 50 sem út af standa. Það er með öðrum orðum megnið af þingheimi, hátt í 50 þingmenn, sem er með álag ofan á þingfararkaup en hinir sem út af standa, 13 eða 14 þingmenn, vinna sína vinnu eðlilega, ég fullyrði að þeir vinni til jafns við alla hina. Þessi launamunur og munur á viðurkenningu starfa þingmanna í heild er gersamlega ólíðandi og Alþingi til skammar að mínu mati.