140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður og félagi, Lúðvík Geirsson, hefur misskilið það sem ég var að reyna að segja. Hugsun mín var alls ekki sú að það ætti ekki að fara yfir þær skýrslur eða úttektir sem Ríkisendurskoðun gerir. Ég var að benda á að í ýmsum málum sem Ríkisendurskoðun tekur út og lúta að fagsviðum nefnda, hvort heldur er fjárlaganefnd, velferðarnefnd eða önnur, er oft og tíðum um að ræða stofnanir eða verkefni sem viðkomandi fagnefndir hafa verið að fást við. Ég nefni bara dæmi úr þeim málaflokki sem ég hef mestu innsýn í, fjárlagagerðinni. Í því efni kallar fjárlaganefnd fyrir stofnanir, vinnur með hluti og hefur eðli málsins samkvæmt miklu betri innsýn í það sem er að gerast en nokkurn tíma stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta hefur verið sérstaklega áberandi allt frá því að þessi breyting var gerð en það hefur ekki verið nógu góð regla á þessu. Það kann að stafa af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur einfaldlega haft nóg á sinni könnu. Ég nefni þjóðaratkvæði eða stjórnarskrármálið og stjórnarráðsbreytingar. Meðan einstakar fagnefndir eru á kafi í stórum málum njóta þau eðlilega forgangs en annað situr á hakanum. Þá hefði ég talið betra fyrirkomulag til að koma einhverjum skikk á þetta að vísa úttektum, skýrslum og álitum sem Ríkisendurskoðun er að taka út beint í faglega umfjöllun í viðkomandi fagnefndum. Þar með er ég ekki að segja að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi ekki að taka á þessu, alls ekki, en það hlýtur að vera bráðnauðsynlegt fyrir þá nefnd að fá meiri aðstoð frá viðkomandi fagnefndum við sitt verkefni en raun ber vitni samkvæmt þeirri reynslu sem við höfum af núverandi verklagi.