140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé ljóst þegar við skoðum þetta mál, og það varð niðurstaða okkar í nefndinni, að sá kostnaður er eins og ég sagði í fyrri ræðu minni óverulegur í samanburði við það sem við erum hér um að fjalla og háður ýmsum óvissuþáttum þannig að ég held að við komumst ekki lengra í þeirri umræðu. Ef hv. þingmaður metur það svo að hér sé um að ræða svo alvarlega og stórfellda hluti að hann geti ekki stutt þetta mál verður svo að vera, en þetta var sameiginleg niðurstaða okkar sem sátum í þessari þingmannanefnd um þingsköpin. Við komumst að þessari niðurstöðu. Við fengum ekki álitsgjafa eða umsagnir þegar við gerðum þessar tillögur en við áttum hins vegar fundi með lögfræðingum þingsins um þetta mál sem kynntu okkur þær reglur sem giltu á vettvangi embættismanna Stjórnarráðsins. Við leggjum þessar breytingar til í fullri vissu um að ekki sé verið að ganga á neinn hátt lengra en gert er á þeim vettvangi og forsætisnefnd er falið að útfæra þessar reglur þannig að þær séu skilgreindar þröngt, séu takmarkandi og feli ekki í sér neinar kjarabætur umfram það sem til dæmis deildarstjórar eða skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu eiga rétt á.