140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

15. mál
[18:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að leiða okkur í sannleika um hvernig nefndin fjallaði um tillöguna. Þetta er mikilvæg tillaga og það er afar ánægjulegt að sjá að um hana virðist vera breið samstaða. Það hefur greinilega verið breið samstaða í nefndinni. Þetta mál hefur verið eitt af áherslumálum Framsóknarflokksins á þessu þingi og var eitt af þeim málum sem við vildum gjarnan ná í gegn í samningum um þinglok. Það er gott að það tókst og þakka ég þingflokksformönnum hinna flokkanna fyrir að hafa samið á þeim nótum við okkur.

Það eru fleiri mál sem við hefðum viljað ljúka hér, t.d. um forvirkar rannsóknarheimildir, það hefði verið ánægjulegt að fá slíkt afgreitt líka en það mál bíður þá næsta þings. Það er gott líka, herra forseti, að það á að gefa góðan tíma í að vinna þessa úttekt og áætlun, það er mjög mikilvægt að vandað verði til verka og tek ég heils hugar undir það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vona svo sannarlega að það myndist breið sátt um þessa tillögu á eftir í atkvæðagreiðslu.