140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[18:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Umhverfisvænir bílar eru allt of dýrir fyrir meginþorra heimila sem nú glíma við sífellt þyngri greiðslubyrði af fasteignalánum. Skattaniðurfellingin sem við erum að fara að samþykkja hér, meðal annars á rafbílum, er því fyrst og fremst í þágu tekjuhárra einstaklinga og heimila. Okkur hv. þm. Birki Jóni Jónssyni finnst ekki mikið réttlæti í þessari tímabundnu skattaniðurfellingu og leggjum því fram breytingartillögu um að margnota taubleiur beri 7% virðisaukaskatt en ekki 25,5% virðisaukaskatt. Slík breyting mun lækka verulega útgjöld hjá mörgum ungbarnafjölskyldum og jafnframt minnka sorp. Það eru tvö tonn á barn sem eyðast á 500 árum. Því hvet ég alla þingmenn til að samþykkja þessa breytingartillögu.