140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[18:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég ætla að höfða til samvisku þingmanna í þessu máli. Við höfum lagt fram breytingartillögu, ég og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem mun minnka útgjöld barnafólks til kaupa á bleium sem er grundvallarþörf.

Í annan stað munum við, með því að samþykkja þessa breytingartillögu, auka umhverfisvernd í landinu. Þær bleiur sem við viljum lækka virðisaukaskattinn á eru umhverfisvænni en þær sem vinsælli eru. Við viljum þess vegna breytingar og mér kemur á óvart að sjá þorra þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vera á móti því að við lækkum verð á bleium í landinu og að við komum til móts við umhverfismálin með því að hvetja til notkunar á umhverfisvænni bleium. Þessi flokkur hefur gersamlega snúið við sínum stefnumálum. Það er með ólíkindum að sjá ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiða atkvæði gegn svo góðu máli sem hér um ræðir.