140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugavert að heyra. Ég kannaðist við alla þessa röksemdafærslu, ég þekki hana vel. Hún hefur legið fyrir lengi. Þetta voru þau rök sem forustumenn Samfylkingarinnar og Alþýðuflokksins hafa áður farið yfir í löngu máli. Þetta þekki ég vel og ég veit að hæstv. ráðherra veit að ég þekki þetta. Þetta eru allt þekkt rök.

Varðandi afkomu í sjávarútvegi og gengi er það líka svo að það hafa komið löng tímabil þar sem gengi íslensku krónunnar hefur verið allt of sterkt. Það hefur valdið sjávarútveginum og sjávarbyggðunum gífurlegum búsifjum. Stundum er gengið of sterkt en stundum hefur það verið veikt, menn hafa gert athugasemd við það og það hefur oft verið vegna stjórnvaldsákvarðana sem gengisskráningin hefur verið röng. En vegna þess að hæstv. ráðherra nefndi verðmæti sjávaraflans og stöðuna fram undan, er rétt að vekja athygli ráðherrans á eftirfarandi frétt sem birtist í dag í Morgunblaðinu. Hún er svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Verð sjávarafurða erlendis lækkaði um 5% á fyrsta ársfjórðungi og bendir það til þess að verðhækkunin undanfarin missiri hafi stöðvast og verð muni jafnvel lækka áfram á næstunni …“

Virðulegi forseti. Svo eru það rökin um ríkissjóð sem komu einmitt fram hér í umræðunni. Ég mundi skilja það mjög vel ef hæstv. ráðherrar kæmu til þings og segðu: Við verðum að nota þessa peninga til að greiða niður skuldir íslenska ríkisins. En það er ekki verið að leggja upp með það. Við urðum vitni að því í umræðu um samgönguáætlun. Við höfum heyrt hæstv. ráðherra marga hverja tala um það hvernig þeir hyggjast nota þetta gjald. Nú síðast hefur það komið fram í áliti þeirrar ágætu nefndar sem er með málið til umfjöllunar hvernig menn sjá fyrir sér að nota gjaldið eða í það minnsta stóran hluta þess, og það er ekki í samræmi við þau rök sem hæstv. ráðherra nefndi hér. Það er auðvitað það sem skiptir máli. Ég verð að segja eins og er að allur rökstuðningur hæstv. ráðherra var sóttur beint í smiðju Samfylkingarinnar og Alþýðuflokksins þar á undan og þetta veit hæstv. ráðherra.