140. löggjafarþing — 128. fundur,  19. júní 2012.

útlendingar.

709. mál
[23:30]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir að fram komu ábendingar um að í því gæti falist framsal valds sem væri á mörkum þess að rúmast innan stjórnarskrár lýðveldisins. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Nefndin ákvað að leita álits utanríkismálanefndar á þessu þætti málsins og hefur meiri hluti utanríkismálanefndar skilað af sér ítarlegu áliti sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um. Þar kemur meðal annars fram að heimild til handa öðru ríki til að verða við umsóknum um vegabréfsáritun til Íslands hefur verið í gildi um árabil, og er rétt að taka tillit til þess þegar við skoðum efnisatriði þessa frumvarps. Sömuleiðis að ákvörðun um að veita erlendu ríki heimild til að synja um útgáfu vegabréfsáritunar fyrir Íslands hönd er afturkallanleg hvenær sem er. Hér er fyrst og fremst um að ræða stjórnsýslufyrirkomulag sem er til mikils hagræðis og er þetta sama fyrirkomulag og hefur tíðkast um árabil á Norðurlöndunum.

Ég vitna til niðurlags í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem segir að utanríkismálanefnd telji ólíklegt að frekari skoðun málsins leiddi til þeirrar niðurstöðu að hugsanlegt framsal stangaðist á við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Allsherjar- og menntamálanefnd tekur undir þessar röksemdir og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.