140. löggjafarþing — 129. fundur,  19. júní 2012.

þingfrestun.

[23:36]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum þessa vorþings. Þingstörfin hafa verið átakamikil enda erfið ágreiningsefni til umræðu. Það hefur því talsvert gengið á og reynt á þolrifin í okkur öllum. Ég treysti því þó að alþingismenn gangi úr húsi í góðri sátt.

Ég vil líka segja að ég er afar þakklát bæði formönnum flokkanna og þingflokkanna fyrir mjög gott samstarf síðustu dagana. Þrátt fyrir djúpstæðan ágreining í ýmsum málum hafa allir lagst á eitt til þess að þingstörfum gæti lokið fyrir sumarhlé Alþingis með eðlilegum hætti. Ég vil einnig færa öðrum þingmönnum sem komu að lausn þessara mála þakkir fyrir.

Það er hins vegar mikið umhugsunarefni hvernig þingstörfunum hefur undið fram síðustu vikurnar. Mikilvægt er því að þingmenn hugleiði þá stöðu og stöðu Alþingis almennt, og komi til þings að nýju með þann ásetning að koma málum hér í betra horf. Það er okkar sem hér störfum að finna lausn á þessum vanda. Ég fagna því að okkur tókst að gera nauðsynlegar lagfæringar á þingsköpum. Það er ágætur áfangi að sinni en okkar bíður enn stærra verkefni þegar í haust er varðar starfshætti okkar.

Ég vil við þetta tækifæri þakka þingskapanefnd kærlega fyrir hennar störf, sérstaklega formanni hennar Árna Þór Sigurðssyni fyrir góða forustu í starfi nefndarinnar. Við væntum þess öll að sjá enn frekari afrakstur af starfi nefndarinnar á næsta þingi.

Ég vil greina þingmönnum frá því að 8. júlí næstkomandi eru liðin 90 ár frá því að kona var fyrst kosin til setu á Alþingi, en það var Ingibjörg H. Bjarnason, skólastjóri Kvennaskólans. Af því tilefni hyggst ég bjóða öllum konum sem tekið hafa sæti á Alþingi til hátíðarsamkomu þann dag.

Í dag, 19. júní, dagur sem senn er á enda runninn, er líka annar mikilvægur dagur í sögu kvenna því að 19. júní 1915 fengu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Um leið og ég óska öllum konum til hamingju með daginn vil ég skýra frá því að í undirbúningi er að minnast þessara tímamóta á veglegan hátt eftir þrjú ár, á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna árið 2015.

Við lok þinghaldsins vil ég þakka öllum þingmönnum fyrir samstarfið á þessu þingi. Ég færi varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins svo og formönnum þingflokka fyrir gott samstarf á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég góða og mikla aðstoð og mikið og mjög gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á nýju þingi.