141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Í gærmorgun gekk ég yfir Austurvöll í erindagjörðum mínum og við mér blasti nokkuð sorgleg sjón. Hún gerði mig dapran í hjartanu. Það var búið að reisa járngirðingu, eða eigum við að segja járntjald, sem skar Austurvöll miðjan. Núna berjast bændur og björgunarsveitarmenn og íbúar saman við náttúruöflin fyrir norðan. Sá samtakamáttur ætti að vera okkur öllum áminning um það hversu mikilvægt það er að vinna saman, takast saman á við viðfangsefnin. Ég sendi þeim baráttukveðjur. Þessi járngirðing ætti hins vegar að vera okkur minnisvarði og áminning um akkúrat hið gagnstæða, minnisvarði um sundrungina sem ríkir í samfélaginu, vantraustið, og hún ætti að vera okkur áminning um það að eitt mikilvægasta verkefni samtímans í íslenskum stjórnmálum og í íslensku þjóðfélagi er að koma á meira trausti, er að koma á sátt.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um þetta. Síðast í gær talaði hæstvirtur forseti Íslands um traust. Það var um margt ágætt, en ég vil nota tækifærið hér og fjalla aðeins um þessa ræðu. Það er tvennt í þeirri ræðu sem ég var dálítið ósammála og vil gera athugasemdir við, annars vegar það að menn skuli telja það algjört aðalatriði, nánast meginatriðið eða jafnvel eina atriðið, í því verkefni að endurreisa traust í þjóðfélaginu að koma á betri vinnubrögðum á Alþingi. Ég held að verkefnið sé miklu margslungnara en svo.

Ég er alveg sammála því að birtingarmynd Alþingis má oft vera betri. Hér eru oft frekar vandræðalegir fundir og við þurfum að bæta vinnubrögðin. En það er mjög margt annað sem Alþingi gerir gott, eins og í nefndarstörfum til dæmis sem þarf að auglýsa betur. Í öllu falli er verkefnið viðameira.

Síðan kom einnig fram sú áhersla í ræðu hæstvirts forseta að sáttin verði á einhvern hátt skilyrt við vissa efnislega niðurstöðu í deilumálum, að sáttin verði að vera bundin við það að hér verði sem minnstar breytingar, ég túlkaði orð hæstvirts forseta þannig. Þetta held ég að sé reginmisskilningur. Ég held að það sé grundvallaratriði þegar við tökumst á við það verkefni að endurreisa sátt og traust í samfélaginu að ganga út frá því og taka það algjörlega sem gefinn hlut að við verðum ósammála. Í samfélaginu verða alltaf ólíkar skoðanir, það er útgangspunkturinn. Við ætlum ekki að útrýma ágreiningi, við ætlum að meðhöndla ágreininginn.

Það sem hefur valdið mér áhyggjum þau ár sem ég hef setið á þingi er það hversu erfiðlega það gengur að virða ferlana sem við ákveðum að setja mál í. Stór ágreiningsmál eru í ferli, jafnvel áratugaágreiningsmál, og mér sýnist það einhvern veginn vera bara mjög erfitt, sérstaklega í þessum sal og úti í samfélaginu líka, að reyna að halda þessu í ferli. Við erum að endurskoða stjórnarskrána, við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það yrði risastór ósigur í því verkefni að reyna að koma á trausti í samfélaginu ef þessi tvö ferli mundu einhvern veginn bara renna út í sandinn. Baráttan snýst um það að reyna að bera virðingu fyrir þessu ferli.

Svo segi ég að þetta sé margslungið viðfangsefni. Ég held að það að koma á trausti í samfélaginu snúi líka að því að takast á við mörg erfiðustu og stærstu viðfangsefnin í efnahagsmálum samtímans. Sjáið þið til, efnahagslíf sem er svona eins og okkar, ófyrirsjáanlegt, sem gerir það að verkum að við þurfum að hafa verðtryggð lán, sem gerir það að verkum að hvert einasta ófyrirsjáanlegt verðbólguskot eyðir verðmætum heimilanna, eyðir sparnaði heimilanna ófyrirsjáanlega. Er þetta ekki samfélag sem skapar vantraust? Þurfum við ekki að takast á við þetta til að geta útrýmt járngirðingunni? Tilviljanakenndur árangur út af þessu, þurfum við ekki að takast á við hann? Þurfum við ekki að takast á við óljós mörk stofnana, óljósan tilgang embætta eins og embættis forseta Íslands, ef við ætlum að byggja upp traust? Er það ekki þess vegna sem við erum að endurskoða stjórnarskrána? Þurfum við ekki að búa til sátt um auðlindanýtingu? Hefur ekki margoft verið lítil sátt um hana, er það ekki þess vegna sem við ætlum að taka til umfjöllunar rammaáætlun um nýtingu og vernd?

Það er til dæmis þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána í aðsigi. Okkur öllum verður að takast að sigrast á þessu verkefni í sameiningu líkt og björgunarsveitarmenn og bændur fyrir norðan. Ég held að það sé alveg lífsnauðsynlegt að þetta takist vegna þess að það er að hefjast uppgangur í samfélaginu. Ég held að þessir brestir í samfélaginu, sem stundum eru kallaðir sveigjanleiki, þessi ófyrirsjáanleiki allur sem leiðir til vantrausts, og þetta víðtæka vantraust sem ríkir í samfélaginu geri það að verkum að uppgangurinn gæti orðið okkur miklu erfiðari en kreppan.

Ég heiti því á alla landsmenn, okkur alla saman, að takast á við það verkefni að byggja upp traust í samfélaginu. Þá mögulega getum við fjarlægt einhvern daginn varanlega járngirðinguna á Austurvelli, sett hana á safn, kannski notað sem þvottagrind eða mögulega sauðfjárrétt fyrir norðan.