141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Góðir Íslendingar. Ég vil senda hlýjar kveðjur norður yfir heiðar þar sem veðráttan hefur leikið íbúa og búfénað grátt.

Hæstv. forseti. Evrópumenn standa enn frammi fyrir efnahagsvanda. Þær þjóðir sem eru í Evrópusambandinu og ekki síst þær sem eru hluti af evrusvæðinu eru uggandi. Norður-Evrópa hefur í vaxandi mæli á sínum herðum vanda ríkja í sunnanverðri álfunni. Fyrir utan umfangsmikinn vanda í Grikklandi bætast við Spánn, Portúgal og Ítalía. Ríkissjóðir þessara landa eru að sligast undan skuldum, atvinnuleysi er mikið, fjárfesting í lágmarki og hættumerkin veruleg. Stjórnlagadómstóll Þýskalands samþykkti í dag björgunaraðgerðir Angelu Merkel en setti þó mikilvæg skilyrði um frekari skuldbindingar.

Við Íslendingar þurfum á því að halda að Evrópusambandið nái tökum á vandanum. Við þurfum á því að halda að hagvöxtur verði í ríkjum Evrópusambandsins og ekki bara þar, heldur að sá vandi sem búið hefur um sig í efnahagskerfi Vesturlanda á undanförnum árum verði beislaður. Ástæðan er einföld. Við byggjum verulegan hluta okkar tekna á útflutningsgreinum, ekki síst fiskútflutningi og þar eru markaðir víða í Evrópu mjög mikilvægir.

Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir byggir á því að þær tekjur verði óraskaðar á komandi árum og ekki bara það, heldur að þessar greinar geti bætt við sig endalausum álögum. Ég nefni stórhækkað veðigjald á sjávarútveginn og dæmalausa fyrirhugaða skattheimtu á ferðaþjónustuna.

Hvarflar ekki að fjármálaráðherra að líta á ástandið fyrir utan landsteinana? Heldur þessi ríkisstjórn að stöðugur straumur ferðamanna til Íslands sé eins og straumþung á sem aldrei hvikar? Auðvitað er það ekki svo. Slíkar álögur geta ekki aðeins haft áhrif á komu ferðamanna heldur á fjárfestingu í greininni.

Góðir Íslendingar. Það er vægast sagt einkennilegt að í ræðu forsætisráðherra er ekkert vikið að ástandinu á erlendum mörkuðum. Það er ekkert minnst á þann vanda sem blasir við ríkjum Evrópusambandsins. Þar er alveg horft fram hjá þeim deilum sem við eigum nú í við Evrópusambandið og fleiri þjóðir vegna makrílstofnsins. Öllu er því sleppt. Það var ágætt hjá Steingrími J. Sigfússyni að impra á þessu í lestri sínum yfir Sjálfstæðisflokknum og tilraunum til að breiða yfir sundurlyndi í eigin flokki.

Það er óhjákvæmilegt, frú forseti, að á Alþingi fari fram umræða um þær heimildir til refsiaðgerða sem Evrópuþingið samþykkti gegn okkur í dag. Það er nauðsynlegt að utanríkisnefnd fari rækilega yfir þetta og hvaða áhrif þetta hefur á samskipti okkar við Evrópusambandið, svo ekki sé talað um hvort standa eigi í aðildarviðræðum þegar svona er komið fram. Ég tel að það þurfi strax í þessari viku að skýra fyrir þinginu hverjar afleiðingar eru og hvernig við ætlum að bregðast við. Það fyrsta er að sjálfsögðu að stöðva þessar aðildarviðræður nú þegar. Ég skil ekki hvernig á því stendur að hæstv. forsætisráðherra geti haldið langa ræðu um stefnu sína og varla nefnt þetta mál og þær fréttir sem bárust í dag.

Virðulegi forseti. Það er langt í frá að þjóðarskútan sé komin á lygnan sjó. Við verðum að breyta um kúrs ef við ætlum að ná tökum á skuldum ríkissjóðs. Við verðum að efla atvinnuvegafjárfestingu, auka atvinnustigið og gera allt sem við getum til að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna í landinu. Við eigum að líta langt fram á veg og gera okkur grein fyrir þeim tækifærum sem blasa við íslenskri þjóð. Það verður þröngt í búi hjá okkur enn um sinn en með því að setja stefnuna á vöxt atvinnulífsins höfum við mikla möguleika, með því að auka sláttinn í hagkerfinu en ekki með stöðugum álögum á almenning.

Ríkissjóður skuldar í dag rúma 1.500 milljarða króna. Sá reikningur lendir á okkur öllum. Það er ekki hægt að seilast látlaust ofan í tóma buddu skattgreiðenda og það er ekkert svigrúm til nýrra útgjalda af neinu tagi án þess að menn viti hvernig eigi að borga. Það er ekki hægt að fara í framkvæmdir upp á krít og það er ekkert undanskilið í því.

Við stöndum frammi fyrir einfaldri spurningu: Ætlum við að leggja áherslu á að auka umsvifin í hagkerfinu og auka þar með tekjur þjóðarbúsins? Ætlum við að skapa skilyrði fyrir lægri álögur á heimili eða fyrirtæki? Eða ætlum við að halda áfram að drepa atvinnulífið í dróma og senda almenningi reikninginn? Það er þversögn í þeirri einkaneyslu sem hér er meðan yfirdráttarskuldir landsmanna hrannast upp. Það er ótækt að útgjöld heimila séu byggð á lántökum, hvað þá jafndýrum lánum og yfirdráttur og greiðslukort eru. Við þessu verður að bregðast og það verður að ráðast að rót vandans en ekki fresta og lengja í. Það má gera í góðu samstarfi í vetur ef allir leggjast á eitt.

Ágætu landsmenn. Við þurfum að horfast í augu við vandamálin til að sigra þau. Það getum við gert og það ætlum við að gera. Þótt við deilum á Alþingi er okkar sameiginlegi vilji sá að á Íslandi verði ávallt blómlegt og gott samfélag. — Góðar stundir.