141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Góðir landsmenn. Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg? Hvernig var umhorfs í íslensku þjóðlífi fyrir fjórum árum? Jú, þjóðarbúið rambaði á barmi gjaldþrots. Það var erfðagóssið sem núverandi ríkisstjórn fékk í fangið eftir nær tveggja áratuga óslitna ríkisstjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins. Verkefnið var stærra og flóknara en nokkur stjórn hér á landi hefur glímt við um langt skeið.

Erum við betur stödd í dag en þá, hvert og eitt okkar og þjóðarbúið í heild? Þótt hér hafi löngum stundum verið kyrjaður söngur um árangursleysi ríkisstjórnarinnar mæla því nú fæstir í móti að uppbygging íslensks samfélags hafi tekist vonum framar. Einhverjar teboðshreyfingar sitja þó fastar við sinn keip í bölmóðnum en hver tekur þær í raun alvarlega? Þeim er jafnvel andæft úr hófsemdarranni Sjálfstæðisflokksins.

Já, við erum betur stödd í dag en við höfum verið frá hruni. Margvísleg verkefni bíða þó enn úrlausnar en vegna þess hversu góður grunnur hefur verið lagður erum við vel búin undir nýjar áskoranir og verkefni, nýjar áherslur og nýja sýn á samfélagið. Af nógu er að taka en ég vil sérstaklega nefna rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða en hún er mikilvægt tæki til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, marka ramma um atvinnuuppbyggingu í bráð en tryggir um leið hagsmuni og rétt komandi kynslóða.

Mikilvægi fjárfestingar í menntun, rannsóknum og vísindum verður vart undirstrikuð nógsamlega en nú eru fyrirhuguð stóraukin framlög til þessara mála, t.d. um 70% aukning til rannsóknasjóðs. Enn fremur þarf áfram að vinna að úrlausn á brýnasta greiðsluvanda heimila og fyrirtækja. Í fjárlagafrumvarpinu eru einmitt boðuð aukin framlög til barnafjölskyldna og atvinnusköpunar.

Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu er þýðingarmikið málefni sem verður til umfjöllunar á næstu missirum. Það á við um tengsl okkar við önnur Evrópulönd, nágrannaríkin í vestri, fjarlægari lönd eins og Rússland og Kína, stefnu okkar og hagsmuni á norðurslóðum og almennt um þátttöku okkar í alþjóðasamfélaginu og baráttunni gegn fátækt, kúgun og hungri sem er daglegt líf milljóna manna. Í þeirri baráttu getum við og eigum að leggja okkar af mörkum, okkar skerfur á þátt í að draga úr misskiptingu og átökum en um leið bæta lífskjör í þróunarríkjum og stuðla að friðsamlegri sambúð þjóða.

Hvað tengsl okkar við Evrópusambandið sérstaklega áhrærir skulum við hafa það hugfast að úrslitum í því máli á þjóðin sjálf að ráða í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem skýrir og ljósir valkostir verða í boði, byggðir á þekkingu og upplýsingum en ekki einhverri skemmri skírn. Þann rétt á þjóðin og niðurstaða hennar þegar þar að kemur verður að vera varanleg.

Þróun efnahagsmála í Evrópu vekur hins vegar upp margvíslegar spurningar og er áhyggjuefni. Hið sama má segja um milliríkjadeilur er tengjast makrílveiðum. Þess vegna er bæði rétt og skylt að meta stöðu mála á næstunni og hvernig framgangi aðildarviðræðna verður best háttað. Þar verður leiðarljósið að vera langtímahagsmunir Íslands í samfélagi þjóðanna en ekki skammtímahagsmunir einstakra stjórnmálamanna eða flokka.

Góðir landsmenn. Eftir óvenjuþurrt og -hlýtt sumar erum við enn einu sinni minnt á að náttúruöflin geta leikið okkur grátt. Á slíkum stundum er þjóðarsálin ein og hugur okkar er með bændum og búaliði og öllum þeim sem nú glíma við að bjarga búpeningi og öðrum verðmætum á Norður- og Norðausturlandi. Samstaðan og samfélagsleg þátttaka er dýrmæt, einnig í stjórnmálum, en í lýðræðissamfélagi er líka brýnt að tekist sé á um skoðanir, hugmyndir og hugsjónir. Það er ekki síst verkefni kjörinna fulltrúa á Alþingi og þar getum við sannarlega gert betur. Það hlutverk verður hins vegar ekki af þinginu tekið og útvistað á aðra bæi.

Forseti. Já, við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg og erum á réttri braut. Já, við erum betur sett nú en við höfum verið allar götur frá hruni. Núverandi ríkisstjórn hefur tryggt lífskjarajöfnuð eftir langt misskiptingarskeið frjálshyggjunnar, hún hefur beitt sér fyrir fjölbreytni í atvinnulífi með áherslu á nýsköpun, þekkingu og skapandi greinar í stað einhæfrar stóriðjusýki. Og takið eftir því að batinn í efnahags- og atvinnulífinu sem þegar er orðinn er tilkominn án þess að náttúrunni sé fórnað.

Góðir landsmenn. Við skulum bjartsýn og keik halda áfram á þeirri réttu braut en veðja ekki á forarpytti frjálshyggjunnar sem við höfum verið að krafla okkur út úr. Kostirnir sem þjóðin stendur frammi fyrir við næstu kosningar verða óvenjuskýrir, þá getur þjóðin valið áfram ríkisstjórn réttlætis, félagshyggju, jöfnuðar og samvinnu og gengið áfram til góðs götuna fram eftir veg.