141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég vil byrja á því að senda bændum og björgunarfólki á norðanverðu landinu baráttukveðjur í því stríði að heimta fé af fjalli og bjarga lömbum undan snjófargi. Ég mun leggja til og taka undir tillögu þess efnis að lagðir verði auknir fjármunir í Bjargráðasjóð til að mæta því tjóni sem verður. Óvissu um afkomu fólks er nauðsynlegt að eyða sem allra fyrst. Ég veit að allir landsmenn hugsa til ykkar og standa með ykkur.

Þjóðin er, þegar allt kemur til alls, samstiga og þrautseig. Það er gott að búa á Íslandi, það hefur verið gott að búa á Íslandi og það mun áfram verða gott að búa á Íslandi. Þjóðir heims eru einnig í síauknum mæli farnar að horfa á landið og norðurheimskautssvæðið og þá fjölmörgu möguleika sem þar kunna að skapast. Norðuríshafssiglingar munu hefjast innan fárra ára hvað sem okkur finnst. Þá verðum við að vera vel á verði og nýta okkur það forskot sem lega landsins skapar okkur.

Akureyri, sem fagnaði fyrir skömmu 150 ára afmæli sínu, hefur líka fest sig í sessi sem vettvangur umræðu um réttindi norðurslóða og það er með ánægju sem ég segi að þingsályktunartillaga sem ég mælti fyrir og samþykkt var á Alþingi á stóran þátt í því. Það eru því ótal fleiri möguleikar í boði fyrir Ísland ef vel er haldið á málum. Það vissum við þegar hrunið skall á okkur. Allar forsendur voru fyrir því að landið mundi rísa úr sæ fyrr en seinna.

Þó að fá af þeim markmiðum sem ríkisstjórnin sjálf setti sér í upphafi kjörtímabilsins hafi náðst, hagvöxtur sé undir væntingum og verðbólgan ógnarhá, er samt ekki þar með sagt að okkur hafi ekki fleygt fram. Það höfum við svo sannarlega gert þrátt fyrir dómsdagsspár núverandi ríkisstjórnar um slæmar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn ef við mundum ekki samþykkja Icesave-reikningana. Það vorum ekki bara við framsóknarmenn sem höfðum rétt fyrir okkur í þeim efnum, þjóðin hafði rétt fyrir sér. Nú velkist enginn í vafa um að það hafi verið rétt að láta skera úr um Icesave-deiluna fyrir dómstólum. Tjónið sem Icesave-klyfjarnar hefðu valdið þjóðarbúinu hefði verið óbætanlegt.

Meiri skaði hefði einnig verið unninn ef við framsóknarmenn hefðum ekki staðið vaktina og barist gegn því að boðaður 30–40% niðurskurður á heilbrigðisstofnunum í Þingeyjarsýslum, á Austurlandi, Skagafirði og norðanverðum Tröllaskaga næði fram að ganga. Nú er boðið upp á læknalausa daga í Vopnafirði á vakt þessarar ríkisstjórnar og er þá ekki um bæjarhátíð að ræða.

Í mínu kjördæmi, sem nær frá Siglufirði í norðri að Djúpavogi í austri, voru allir möguleikar á uppbyggingu og í raun hefði svæðið getað verið í stórsókn á þessu kjörtímabili. Þess í stað hefur ítrekað borið nauðsyn til að boða til borgarafunda út af fyrirhuguðum áætlunum ríkisstjórnarinnar, svo oft að ég hef ekki tölu á þeim fundum sem ég hef sótt af því tilefni. Það voru ekki bara heilbrigðismálin sem brunnu á fólki heldur einnig boðaðar aðgerðir gegn sjávarútvegi, brestur á loforðum um jarðgöng sem og um stórframkvæmdir. Meira að segja Háskólinn á Akureyri hefur þurft að berjast fyrir sínu, allt í boði núverandi stjórnvalda..

Það sem hins vegar hefur einkennt baráttu fólks á Norðausturlandi er samvinna og samstaða. Það er til að mynda til fyrirmyndar hvernig margar bæjar- og sveitarstjórnir hafa unnið saman í minni og meiri hluta, þvert á flokka og stjórnmálaskoðanir.

Ég trúi á samvinnu fólksins í landinu, samvinnuhugsjónina sem gengur út á framþróun og framsækni öllum landsmönnum til heilla, að allir geti notið gæða landsins, náð sér í menntun og haft aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hvar sem þeir búa á landinu. Því miður hefur ríkisstjórn átakanna, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, unnið í þveröfuga átt við þessi markmið.

Ísland þarfnast forustu. Sú forusta má ekki vera byggð á hatri, sérhagsmunagæslu eða átökum. Forustan þarf að byggja á viljanum til samvinnu, umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra, auðmýkt í samskiptum, virðingu og síðast en ekki síst efnislegu mati á þeim leiðum sem standa til boða hverju sinni.

Kæru landsmenn. Framtíðin er björt á Íslandi ef okkur tekst að snúa vörn í sókn, framsókn fyrir komandi kynslóðir með samvinnu og sanngirni að leiðarljósi. — Góðar stundir.