141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013. Um er að ræða fjórða fjárlagafrumvarp sem lagt er fram í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og það síðasta á þessu kjörtímabili. Fyrri frumvörp hafa af þekktum ástæðum verið umfangsmeiri með tilliti til aðgerða bæði á tekjuhlið og útgjaldahlið. Nú horfir svo við að aðgerðir þær sem farið var í á fyrri hluta kjörtímabilsins, á fyrstu missirum eftir hrun ásamt aðhaldssömum ríkisrekstri, hafa skilað sér í stöðugt betri afkomu ríkissjóðs.

Þáttaskil eru að verða í þróun ríkisfjármála á Íslandi um þessar mundir. Allar horfur eru á að jákvæður frumjöfnuður náist í ríkisrekstrinum á yfirstandandi fjárlagaári í fyrsta skipti frá hruni íslenska bankakerfisins. Þar við bætist að áætlað er að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi náð hámarki um síðustu áramót og muni fara lækkandi næstu árin.

Langtímahagsmunir í stað skammtímalausna. Almannahagur í stað sérhagsmuna hafa verið leiðarstef ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og eru jafnframt hryggjarstykkið í þessu fjárlagafrumvarpi. Í frumvarpinu felst sú mikilvæga ráðstöfun að auðlindir þjóðarinnar eru nýttar til þess að styrkja innviði samfélagsins.

Verkefnið fram undan er að tryggja áfram framgang ríkisfjármálaáætlunar svo heildarjöfnuður náist á fjárlagaárinu 2014 og góður afgangur verði á næstu árum. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 er samið með áætlunina í huga enda mun sá áfangi að stöðva skuldasöfnun vegna hallareksturs ríkissjóðs skjóta styrkari stoðum undir velferðarkerfið. Við vinnum eftir áætlun í ríkisfjármálum og með staðfestu og öguðum vinnubrögðum náum við þeim árangri sem að var stefnt.

Ein af stóru tíðindunum í fjárlagafrumvarpinu eru að nú er í augsýn að heildarjöfnuður náist á ríkissjóði. Gert er ráð fyrir því að heildarjöfnuður ríkissjóðs verði neikvæður sem nemur einungis 0,1% af vergri landsframleiðslu ef óreglulegir liðir eru meðtaldir, en að þeim frátöldum verði hann lítils háttar jákvæður. Ríkir almannahagsmunir felast í því að ríkissjóður nái heildarjöfnuði. Með því tekst að stöðva skuldasöfnunina og skapa grundvöll fyrir því að jákvæður heildarjöfnuður nýtist til niðurgreiðslu skulda. Á eftir velferðarmálum er vaxtakostnaður nú næststærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Lækkun á þeim útgjaldalið kemur öllum til góða.

Í kjölfar bankahrunsins var nauðsynlegt að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem Íslendingar stóðu frammi fyrir. Á sama tíma var unnið að því markmiði að standa vörð um grunnstoðir íslensks velferðarkerfis. Því hefur skattkerfinu verið breytt þannig að fólk sem hefur meira milli handanna greiðir hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði en þeir sem hafa lægri tekjur. Samanburður á milli landa með aðstoð Gini-stuðulsins sýnir okkur að jöfnuður á Íslandi hefur aukist frá hruni á meðan ójöfnuður eykst í sumum samanburðarlandanna. Ójöfnuður hafði aukist hér mikið á árunum fyrir hrun en nú snýst þróunin við og aukinn jöfnuður í samfélaginu er staðreynd enda ríkisstjórn jafnaðarmanna við stjórnvölinn hér á landi.

Rannsóknaraðilar hafa bent á að nú sé sérstaklega brýnt að huga að barnafjölskyldum í greiðsluvanda. Því er að finna í þessu frumvarpi þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að grípa til sérstakra ráðstafana sem gagnast þessum hópi.

Barnabætur verða hækkaðar verulega en barnabótakerfið er skilvirkt tæki til lífskjarajöfnunar. Styrking þess mun bæta velferð barna hér á landi.

Annað sem koma mun barnafjölskyldum til góða eru auknar greiðslur í fæðingarorlofi. Eftir bankahrunið varð að draga úr halla ríkissjóðs og fólust aðgerðir í þá veru meðal annars í sparnaði í útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er nú unnið að áætlun um að byggja aftur upp fæðingarorlofskerfið og til lengri tíma að lengja orlofið í 12 mánuði.

Efling vaxtabótakerfisins mun einnig koma barnafjölskyldum til góða, sem sumar hverjar hafa glímt við greiðsluvanda.

Öll þessi atriði eru sett á oddinn í fjárlagafrumvarpinu.

Einnig stendur til að leggja fram frumvarp til laga um lífeyristryggingar almannatrygginga fyrir afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Ætlunin er að kerfið verði einfaldað með fækkun bótaflokka, einfaldari reglum um útreikninga bóta og auknu jafnræði og aðgengi.

Vegna þess árangurs sem náðst hefur með breytingum á skattkerfinu og aðhaldssamri ríkisfjármálaáætlun síðustu ára hefur nú myndast svigrúm til aukinnar fjárfestingar hins opinbera. Því kynnti ríkisstjórnin áform sín í þá veru í maímánuði síðastliðnum undir heitinu Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015. Markmið hennar er að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi og er liður í nýrri sókn fram á veginn eftir efnahagsáfallið. Hún er sett fram með þeirri forsendu að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið og að í ríkissjóð renni tekjur af umframhagnaði í sjávarútvegi samkvæmt nýjum lögum um veiðigjöld, eins og ég mun víkja að á eftir. Samtals er í fjárlagafrumvarpinu 2013 gert ráð fyrir að 4,2 milljörðum kr. af tekjum af veiðigjaldi verði ráðstafað til nýrra verkefna í fjárfestingaráætluninni, þ.e. samgöngumála, byggðamála og rannsóknar- og tækniþróunarmála.

Fjárfestingaráætlunin gerir einnig ráð fyrir að arðgreiðslur og hluti söluandvirðis á eignarhlutum ríkisins í fjármálastofnunum renni til tiltekinna annarra fjárfestingarverkefna, svo sem fangelsisbyggingar, hönnunar og byggingar nýrrar Vestmannaeyjaferju, uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum, til skapandi greina og græna hagkerfisins, svo eitthvað sé nefnt.

Eftir sem áður byggist fjárfestingaráætlunin á því að ríkisfjármálaáætlunin verði í forgangi og að markmiði um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2014 verði ekki raskað.

Þessir tilteknu fjárfestingarkostir eru því ekki innifaldir í fjárlagafrumvarpinu vegna þess að enn er óljóst hversu miklar tekjur munu renna til ríkisins vegna arðgreiðslna eða sölu eignarhluta á næstu árum. Gert er ráð fyrir að fyrir 2. umr. fjárlaga hafi forsendur fyrir þeirri tekjuöflun skýrst og þá um leið hversu mörg verkefni sem tilheyra þessum hluta fjárfestingaráætlunarinnar geta samrýmst ríkisfjármálaáætluninni og orðið að veruleika á árinu 2013. Einnig er unnið að áætlun um byggingu nýs Landspítala. Sú áætlun verður fullbúin fyrir afgreiðslu frumvarpsins.

Alþingi samþykkti í júní á þessu ári frumvarp til laga um heimild til fjármálaráðherra til að undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til gangaframkvæmda fyrir allt að 8,7 milljarða kr. Hófust framkvæmdir við undirbúning í ágúst síðastliðnum en áætlað er að þeim verði lokið að fjórum árum liðnum. Sjálf framkvæmdin og rekstur ganganna verður hins vegar á hendi félags sem innheimta mun veggjöld til að standa straum af endurgreiðslum lána og rekstrarkostnaði. Þar með kemst til framkvæmda með atbeina ríkisins fyrsta stóra fjárfestingarverkefnið eftir efnahagsáfallið haustið 2008.

Á síðasta þingi samþykkti Alþingi ný lög um veiðigjald og í frumvarpinu er í fyrsta sinn gert ráð fyrir umtalsverðum beinum tekjum ríkisins af auðlindum þjóðarinnar. Reiknað er með að tekjuaukning ríkissjóðs umfram það sem gengið var út frá í fyrri ríkisfjármálaáætlun síðasta haust verði 6,2 milljarðar kr. á fiskveiðiárinu og út árið 2013 vegna þessara breytinga.

Tekjuaukning ríkissjóðs af gjöldum sem lögð eru á þá sem nýta auðlindir landsins mun skila sér strax á næsta ári og verður meðal annars nýtt til þeirra velferðarmála sem ég nefndi fyrr í ræðu minni.

Í frumvarpinu er að finna áform um að auka tekjur hins opinbera af erlendum ferðamönnum. Verður það gert með þeim hætti að virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu verður hækkaður úr lægra þrepi kerfisins í það hærra, þ.e. úr 7% í 25,5%. Gert er ráð fyrir að það auki tekjur ríkissjóðs um 3,5 milljarða kr. á ársgrunni en um 2,6 milljarða kr. á næsta fjárlagaári þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingin taki gildi þann 1. maí 2013.

Hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu var 5,9% árið 2009. Til samanburðar var þá áætlað að vægi fiskveiða í vergri landsframleiðslu væri 5,8%, vægi fiskvinnslu 4,3% og vægi landbúnaðar 1,2%. Hún er því orðin fyrirferðarmikil í hagkerfinu og búin að slíta barnsskónum. Vöxtur ferðaþjónustunnar mældur í fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækja landið er mjög mikill. Hann er 7,7% árlega ef litið er til lengri tíma, en yfir 15% á síðustu tveimur árum.

Virðisaukaskattur á hótel og gistiþjónustu var lækkaður, eins og þekkt er, úr 14% í 7% skömmu fyrir kosningar árið 2007. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur bent á að nú kunni að vera heppilegur tími til að hækka hann aftur. Því er ég sammála. Ferðaþjónustan ætti að halda áfram að vaxa á réttum forsendum.

Umræður og skipti á upplýsingum hafa átt sér stað á milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og hagsmunaaðila hvað þetta varðar. Í þeim umræðum hafa meðal annars komið fram sterk rök fyrir því að aðlögunartími breytingarinnar sé of stuttur. Yfir þau mál verður farið gaumgæfilega.

Starfshópur hefur verið settur á laggirnar sem fjalla á um forsendur og áhrif þess að afnema þá ívilnun sem felst í að gistiþjónusta sé skattlögð í neðra þrepi virðisaukaskatts. Hópurinn á líka að fjalla um samkeppnisstöðu og jafnræði greina innan ferðaþjónustunnar í skattalegu tilliti, þar með talið leyfisveitingar til aðila sem bjóða gistiþjónustu og aðgerðir til að koma í veg fyrir undanskot frá skattgreiðslum og til að styrkja stöðu ferðaþjónustunnar. Í hópnum eru fulltrúar frá innanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og embætti ríkisskattstjóra. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar tvo fulltrúa í starfshópinn og er annar formaður. Samtök ferðaþjónustunnar skipa einnig tvo fulltrúa í starfshópinn.

Tryggingagjald helst óbreytt samkvæmt frumvarpinu. Atvinnutryggingagjaldið lækkar í samræmi við minna atvinnuleysi en sá hluti tryggingagjaldsins sem rennur samkvæmt lögum til lífeyristrygginga almannatrygginga hækkar í sömu hlutföllum vegna mikils útgjaldavaxtar þess málaflokks á undanförnum árum. Þrátt fyrir þá hækkun dugar heildarupphæðin aðeins fyrir um 57% af útgjöldunum. Fyrir afgreiðslu frumvarpsins munu viðræður fara fram við sveitarfélög, stéttarfélög og samtök atvinnulífsins um aðlögun að þeim breytingum sem fylgja því að ekki verður lengur mögulegt að vera fjögur ár á atvinnuleysisbótum.

Áhrif þeirrar breytingar á atvinnutryggingagjaldið vegna færri bótaþega bíður því útfærslu. Samtök atvinnulífsins hafa komið á framfæri athugasemdum sínum við breytingar á tryggingagjaldi og mun fjármálaráðuneytið fara yfir þær samhliða þeim viðræðum sem minnst er á að framan.

Tekjuskattur fyrirtækja verður áfram 20%, sem er einn sá lægsti á meðal ríkja OECD.

Lagðar eru til breytingar á vörugjöldum sem tengjast manneldissjónarmiðum. Þá er fyrsta áfanga náð af tveimur er lúta að því að vörugjöld á bílaleigubíla eru samræmd við vörugjöld sem aðrir kaupendur ökutækja greiða.

Fjársýsluskattur sem lagður er á laun, þóknanir og hlunnindi fjármálafyrirtækja er aukinn en sérstakur skattur á hagnað fjármálafyrirtækjanna er afnuminn.

Skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verða samkvæmt frumvarpinu 27,1% árið 2013, sem er 0,1 prósentustiga lækkun frá yfirstandandi ári, en það hlutfall var til samanburðar 31,5% á árinu 2006.

Frumtekjur eru áætlaðar 545,4 milljarðar kr. á árinu 2013 og aukast um 35,2 milljarða kr. frá áætlun 2012. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 570,3 milljarðar kr. árið 2013 og aukast um 36,8 milljarða kr. frá áætlun 2012.

Með þeirri aðferð sem stjórnvöld hafa fylgt við að útfæra aðgerðir til aðlögunar á útgjaldahliðinni hefur velferðarþjónustu verið hlíft eins og hægt er, einnig menntamálum og löggæslu, en meiri hagræðingu náð í almennri stjórnsýslu og rekstri ríkisins.

Við undirbúning frumvarpsins voru sett veltutengd aðhaldsmarkmið á ráðuneytin sem nema 1,75% af veltu almennrar stjórnsýslu, eftirlits og þjónustu, 1,2% af veltu bótakerfa og sjúkratrygginga í heild, 1% af veltu háskóla og framhaldsskóla en einungis 0,5% af veltu löggæslustofnana. Einnig var tekin ákvörðun um að gera enga hagræðingarkröfu í frumvarpinu í rekstri sjúkrahúsa, heilsugæslu, heilbrigðisstofnana og öldrunarstofnana, en þessir málaflokkar eru einna umsvifamestu rekstrareiningar ríkisstarfseminnar.

Alls er áætlað að veltutengd aðhaldsmarkmið skili fjögurra milljarða kr. lækkun útgjalda á árinu 2013. Til viðbótar er áætlað að sértækar aðhaldsaðgerðir muni lækka útgjöld um 2,7 milljarða kr. og samanlagt muni aðhaldsaðgerðir frumvarpsins skila 6,7 milljarða kr. sparnaði á árinu 2013. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru heildarútgjöld komin nálægt því sem þau voru á árunum fyrir hrun.

Frumgjöld eru áætluð 485 milljarðar kr. í frumvarpinu og hækka um 6,6 milljarða kr. frá áætlun 2012. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 573,1 milljarður króna og aukast um 13,7 milljarða kr. frá áætlun 2012.

Gerð er grein fyrir áhættuþáttum í frumvarpinu sem gætu íþyngt ríkissjóði. Staða Íbúðalánasjóðs er áhyggjuefni. Mat á stöðu sjóðsins stendur nú yfir. Mögulegt er að ríkissjóður leggi honum til aukið framlag til styrkingar á eiginfjárgrunni hans. Slíkt framlag myndar eign á móti í reikningum ríkissjóðs og hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs á rekstrargrunni þótt kostnaðurinn dreifist vitanlega á mörg ár.

Óvissa ríkir um lyktir málaferla vegna Icesave-málsins fyrir EFTA-dómstóli. Ókleift er að áætla kostnað sem kynni að falla á ríkissjóð vegna þess.

Efnahagsforsendur frumvarpsins eru miðaðar við hagspá Hagstofunnar sem birt var opinberlega í byrjun júlí síðastliðinn. Þar er miðað við að hagvöxtur verði 2,7% og haldist jafn út spátímann, verðlag hækki um 3,9% en verðbólgan nái viðmiðum Seðlabankans á árinu 2015. Atvinnuleysi verði 5,3% og lækki jafnt og þétt og verði 4% árið 2016, viðskiptajöfnuður verði neikvæður um 2,1% af vergri landsframleiðslu og kaupmáttur launa aukist um 1,7% og hann aukist á hverju ári út spátímann. Von er á nýrri hagspá Hagstofunnar í nóvember og þá verða forsendurnar uppfærðar og tekjuáætlun endurmetin. Ýmislegt bendir til að nóvemberspáin verði bjartsýnni en hagspáin frá því í sumar og að það geri okkur mögulegt að bæta inn brýnum verkefnum sem ekki rötuðu í frumvarpið, enda muni aðgerðir í ríkisfjármálum þrátt fyrir það snúast um að ríkissjóður skili afgangi árið 2014.

Í apríl 2011 samþykkti ríkisstjórn þriggja ára áætlun um innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar. Á því tímabili vinnur hvert og eitt ráðuneyti með meginmálaflokk. Með þessum hætti er verið að greina kynjaáhrif af rúmlega 150 milljarða kr. veltu fjárlaganna.

Nauðsynlegt er að greina hvaða áhrif ákvarðanir sem teknar eru með fjárlögum hafa á kjör karla annars vegar og kvenna hins vegar. Sú vinna er þó til lítils ef henni fylgja ekki viðmið, mat og viðbrögð við niðurstöðunum. Hugmyndir og ferlar sem fylgja kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð þarf að festa í sessi í stjórnsýslunni allri. Það ætti að leiða til þess að ákvarðanir verði teknar á grundvelli kyngreindra gagna. Innleiðingin getur verið tæknileg í fyrstu, til dæmis með bættum merkingum í mannauðskerfi stofnana til að auðvelda greiningu eftir kynjum. Mikilvægt er að leggja áherslu á að auðvelda innleiðinguna og úrvinnslu grunngagna. Þar látum við tæknina vinna með okkur.

Við getum sagt að allar krónur sem lagðar eru til samfélagsins séu kynjakrónur. Það á við hvort heldur við um krónurnar sem nýttar eru í að efla velferðarþjónustu, byggja upp innviði samfélagsins eða í fjárfestingar. Við þurfum að læra að líta þannig á málin og skilja hvað það hefur í för með sér.

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð á að leiða til eftirsóknarverðra breytinga. Ef rétt er á haldið munu breytingarnar leiða af sér aukið jafnrétti, upplýstar ákvarðanir á grundvelli kyngreindra gagna, betri efnahagsstjórn og betri nýtingu opinberra fjármuna.

Fyrsta áfanga af þremur í ferlinu er lokið og niðurstöður þeirra eru kynntar í fjárlagafrumvarpinu. Lokaskýrslur verða tilbúnar árið 2014.

Í lok júlí síðastliðins námu heildarskuldir ríkissjóðs 1.508 milljörðum kr., sem jafngildir um 86% af vergri landsframleiðslu. Á sama tíma námu hreinar skuldir um 809 milljörðum kr., sem jafngildir um 46% af vergri landsframleiðslu. Hreinar skuldir eru skilgreindar sem heildarskuldir að frádregnum veittum lánum, skammtímakröfum og handbæru fé ríkissjóðs. Áætlað er að skuldir hins opinbera, þ.e. skuldir bæði ríkis og sveitarfélaga, hafi numið 1.616 milljörðum kr. í lok árs 2011, eða sem nemur 99% af vergri landsframleiðslu. Er það talið hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Hafa ber þó í huga að ef litið er á hreinar skuldir stendur hið opinbera betur að vígi í alþjóðlegum samanburði.

Í alþjóðlegum samanburði á skuldahlutföllum er yfirleitt ekki tekið tillit til lífeyrisskuldbindinga. Slíkur samanburður væri Íslandi hagstæður í flestum tilvikum þar sem fá lönd búa yfir jafnsterku lífeyriskerfi og Ísland. Þá er aldurssamsetning þjóðarinnar einnig styrkur í slíkum samanburði þar sem Íslendingar eru að jafnaði mun yngri en Evrópubúar.

Samhliða áætlun um niðurgreiðslu skulda þarf að útfæra áætlun um hvernig mæta skuli skuldbindingum vegna lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna. Þannig stefna B-deildir LSR að óbreyttu í þrot árið 2026 og þyrftu þær þá um 19 milljarða kr. árlegt framlag til að standa við skuldbindingar sínar.

Mjög skuldsettur ríkissjóður er veikleikamerki sem hefur áhrif víða í hagkerfinu. Almennt er talið óskynsamlegt að skuldir hins opinbera fari mikið yfir 60% af vergri landsframleiðslu. Því verður það áfram forgangsmál að vinna hratt og örugglega niður skuldir ríkisins eftir að heildarjöfnuði hefur verið náð.

Sem dæmi má nefna að ef afkoma ríkissjóðs gæti skilað 50 milljarða kr. afgangi á ári til niðurgreiðslu skulda tæki það 10 ár að lækka skuldir um þriðjung. Þrátt fyrir bjartari tíð mun það því taka fólkið í landinu nokkur ár til viðbótar að greiða fyrir hagstjórnarmistök fyrri ára. Því er mikilvægt að áfram verði gætt aðhalds og skynsemi við stjórn ríkisfjármála.

Á árinu 2013 er gert ráð fyrir að vaxtajöfnuðurinn verði neikvæður um 63,2 milljarða kr., sem svarar til 3,4% af vergri landsframleiðslu. Ríkisfjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að hallinn á vaxtajöfnuðinum muni aukast á næstu árum í krónum talið en að hann muni ná hámarki sínu 2013 og lækki síðan í jöfnum skrefum ár frá ári og nemi 2,9% af vergri landsframleiðslu í árslok 2016. Hallinn á vaxtajöfnuðinum svarar til nærri 12% af frumtekjum ríkissjóðs á næsta ári.

Almennt er talið að vaxtakjör séu hagstæð um þessar mundir. Því getur vaxtakostnaður ríkissjóðs auðveldlega aukist í framtíðinni. Þess vegna er aldrei of oft áréttað að við verðum að vinna á skuldahalanum og breyta þannig vöxtum í velferð.

Samanburður á milli landa er oft hjálplegur til að dýpka skilning á því viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir og árangri þeirra aðferða sem þjóðríkin kjósa að beita í baráttu við kreppuna. Í þeim samanburði höfum við sjálf og alþjóðlegt samstarfsfólk okkar kosið að nota talnaefni aðallega frá Írlandi, Portúgal og Grikklandi. Það er eðlilegt í ljósi þeirrar stöðu sem þessi ríki voru í við upphaf kreppunnar. Ég er þeirrar skoðunar að í ljósi þess árangurs sem náðst hefur verðum við að setja ný markmið. Við eigum aftur að fara bera okkur saman við hin Norðurlöndin því að þangað eigum við að stefna.

Hin svokölluðu Maastricht-skilyrði sem Evrópusambandið miðar við varðandi upptöku evru gera ráð fyrir að skuldir hins opinbera nemi ekki meira en 60% af vergri landsframleiðslu og hallarekstur ríkissjóðs verði ekki meiri en 3%. Hvaða skoðun sem fólk hefur á því hvort Ísland eigi að stefna að upptöku evru geta flestir verið sammála því að þessi markmið eru skynsamleg. Það er því ánægjulegt að frumvarpið gerir ráð fyrir því að Ísland uppfylli annað þessara markmiða strax á næsta ári. Enn er nokkuð í land að Ísland uppfylli fyrra markmiðið en með áframhaldandi aðhaldi og afléttingu gjaldeyrishafta er það ekki svo fjarlægt. Innan þessara marka eru hin Norðurlöndin og þangað viljum við komast.

Frú forseti. Íslendingar hafa aldrei gefist upp. Við göngum rösklega til verks, það höfum við sýnt síðustu árin. Þess vegna er viðsnúningurinn eftir hrun svona snarpur. Fólkið í landinu var reiðubúið í það erfiða verk að endurreisa efnahag landsins þó að það kostaði fórnir og nú er uppskeran í augsýn.

Nú eru um fjögur ár liðin frá hruni fjármálakerfisins, gengis íslensku krónunnar og um leið trausts á stofnunum samfélagsins. Nú benda hins vegar hag- og samfélagsvísar til þess að mestu erfiðleikarnir séu að baki. Hagvöxtur er stöðugur og bjartsýni í samfélaginu eykst.

Árangur í rekstri ríkissjóðs, stöðugur hagvöxtur og auknar tekjur af auðlindum gefa tilefni til að bæta að hluta upp fyrri niðurskurð í völdum málaflokkum, eins og tíundað var hér að framan.

Endurreisn efnahags landsins eftir hátt fall þess er ekki bara fyrir skynsamleg verk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur heldur náðist hún vegna þess að fólkið í landinu lagði sig fram við lausn vandans. Það fólk á það skilið að við förum vel með almannafé, ráðstöfum skatttekjum skynsamlega og á réttlátan hátt, að við hugum að langtímahagsmunum í stað skammtímalausna og að almannahag í stað sérhagsmuna.

Í samanburði við þau erfiðu verk sem að baki eru er það létt verk fyrir fjármálaráðherra að fylgja frumvarpinu úr hlaði. Ég hlýt að vænta þess að þingheimur fagni því að við höfum náð þeim umtalsverða árangri sem frumvarpið vitnar til um.

Frú forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.