141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hennar ræðu. Það verður eftirsjá að henni úr stóli fjármálaráðherra, ég hef fulla trú á því að hún hafi verið að reyna að gera sitt allra besta. En við erum ósammála um margt eins og gengur og þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ríkisstjórninni hefur mistekist svo hrapallega að ná þeim markmiðum sem hún sjálf setti sér í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn árið 2009 og koma fram í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Hagvöxtur er töluvert minni en gert var ráð fyrir og verðbólgan er miklu hærri með tilheyrandi tjóni fyrir heimilin í landinu. Þrátt fyrir það voru menn sammála um að þessi markmið væru ekkert sérstaklega háfleyg á sínum tíma.

Í kjölfar þessa er kannski hægt að velta því fyrir sér hvort við þurfum ekki að koma á raunverulegum hagvexti. Við höfum séð það á þessu ári að hagvöxturinn er keyrður áfram vegna úttektar á séreignarsparnaði. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hún deili ekki áhyggjum mínum af því að yfirdráttur landsmanna hefur aukist jafnskelfilega mikið og raun ber vitni. Það væri ágætt að fá svör við þessum spurningum og svo bæti ég við fleirum hér á eftir.