141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:19]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar bara að árétta hvort það sé virkilega rétt að niðurskurður um á fimmta hundrað milljónir til sérstaks saksóknara hafi verið gerður án þess að haft hafi verið samráð við embættið. Er það rétt eða er það rangt?

Hin spurningin snýr að skuldastýringu ríkissjóðs. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um það að skuldastýring ríkissjóðs Íslands er ekki í samræmi við það sem kallast „best practises“ eða bestu aðferðir hjá OECD. Það var tekið úr þeim farvegi árið 2007. Ítrekað hefur verið bent á að það sé æskilegt, með tilliti til stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, að skuldastýring ríkissjóðs sé sett í þann farveg aftur.

Ég leyfi mér að benda á að staðan á skuldum ríkissjóðs er svona slæm meðal annars vegna þess að það er verið að möndla með hana inni í fjármálaráðuneytinu en ekki af þar til bærum aðilum eins og var gert á árunum fyrir 2007. Bestu aðferðir eru ekki (Forseti hringir.) nýttar. Ég spyr því ráðherrann: Er eitthvað í farvatninu um að þetta verði lagað?