141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég hef skilning á því að hæstv. ráðherra komst ekki yfir að svara öllum spurningunum. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra er sammála því að ef þessi skattlagning gengur eftir muni ferðamönnum fækka. (Gripið fram í.) Eða þeim mun fækka þó að þeim fjölgi, eins og sagt er. [Hlátur í þingsal.] Þetta er náttúrlega bara útúrsnúningur og vitleysa, að segja að þeim muni fjölga þótt fjölgunin verði minni við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þetta er tog sem maður nennir varla að taka þátt í.

Mig langar að ítreka spurningu mína um Íbúðalánasjóð. Nú segja menn að það sé svo mikilvægt að ná tökum á ríkisfjármálunum, en er þá skynsamlegt að hafa þessa 14 milljarða fyrir utan fjárlög? Menn vita og hafa vitað allt þetta ár um þessa upphæð. Væntingar eru eitt en niðurstaða annað. Og síðan vil ég ítreka þá spurningu mína hvort hæstv. ráðherra geti upplýst þingið um það hvort það hangi hugsanlega einhverjar ríkisábyrgðir yfir okkur núna sem tengjast Arion banka og þá væntanlega gamla Útvegsbankanum. Hefur hæstv. ráðherra einhverja hugmynd um það?