141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi Íbúðalánasjóð þá er auðvitað ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði og það er því ríkisins að bregðast við veikingu hans. Það er verið að meta stöðuna. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum vitað það lengi að sjóðurinn hefur ekki náð 5% eiginfjárhlutfallinu sem krafist er samkvæmt reglugerð, en við höfum sagt að við mundum ná því marki í áföngum en ekki í einu skrefi. Ef við ætlum að taka það í einu skrefi miðað við þá stöðu sem er núna, er upphæðin sem hv. þingmaður nefndi rétt, en það er ekki komin niðurstaða í það mál.

Ég spyr hv. þingmann: Ef ríkissjóður á ekki að leggja til eigið fé inn í Íbúðalánasjóð sem hefur fulla ríkisábyrgð, hvernig vill hann þá hugsanlega styrkja sjóðinn? Þetta er vandamál sem við stöndum frammi fyrir. (Forseti hringir.) En um leið og við setjum inn pening í Íbúðalánasjóð til þess að auka eigið fé skrifast það sem eign á móti í ríkisreikningi þannig að það hefur ekki áhrif á frumjöfnuðinn, þó að auðvitað þurfum við að greiða kostnaðinn á mörgum árum. Matið er ekki komið. Þegar það kemur munum við fara yfir stöðuna. Varðandi (Forseti hringir.) aðrar ríkisábyrgðir tökum við þá umræðu síðar.