141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann kallar eftir tillögum og útfærslum okkar sjálfstæðismanna í þinginu. Ég verð að segja það fyrir mína parta að höfum lagt fram efnahagstillögur á hverju þinginu á fætur öðru. Þær hafa því miður ekki fengist afgreiddar. Það vildi þannig til að síðast þegar við fengum að ræða þær — ætli það sé ekki rétt tæpt ár síðan — var ég fyrstur á mælendaskrá og þurfti að vera það í margar vikur en málið var aldrei sett á dagskrá.

En það var þó eitt gott við það, þ.e. hve margir tóku þátt í þeirri umræðu fyrst. Margir þeirra — og meira að segja hæstv. ráðherra — fögnuðu þeim skoðanaskiptum sem þar áttu sér stað. Margir sáu ýmislegt gott í þeim tillögum og vildu ræða frekar. En því miður gafst ekki tími til þess og ekki er við mig að sakast í því. Menn geta ekki komið fram og sagt: Ef þú vilt ekki gera þetta svona, hvað viltu þá gera í staðinn? Þetta voru tillögur sem við lögðum mikla vinnu í.

Ef við ætlum að ná árangri í störfum þingsins verðum við að taka efnislega umræðu en ekki vera í einhverri frasaumræðu á þeim nótum að allt sem þið gerið sé vonlaust en allt sem við gerum sé rétt. Það er versti óvinur okkar allra ef við tökum ekki þátt í efnislegri umræðu og rökræðu um hlutina. Annars komumst við aldrei að bestu niðurstöðunni.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á það sem þóttu töluvert mikil tíðindi á þeim tíma — hann hafði reyndar ekki tekið sæti á þingi þegar það gerðist — þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, og það var samþykkt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins, buðu fram aðstoð sína. Við sögðum þegar niðurskurðurinn var að byrja: Við viljum skera niður fleiri milljarða, fleiri milljarða í viðbót. Við skulum hjálpa ykkur við það. Við skulum taka þátt í því með ykkur að endurreisa efnahagslífið og þjóðfélagið. Það er auðvitað markmið okkar allra að gera það.