141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við hv. þingmaður erum nokkuð sammála um hvernig ber að gera þetta. Ég er sammála hv. þingmanni um það að ákvörðunarvaldið ætti aldrei að fara frá þinginu heldur væri þetta hugsað með þeim hætti að forsendur fjárlagafrumvarpsins sem eru lagðar fram á hverjum tíma væru rýndar af öðrum sérfræðingum en þeim sem eru í stjórnsýslunni eða á þingi.

Við þekkjum það þegar við förum að ræða fjárlögin út frá hugmyndum hvers og eins að menn hafa mismunandi skoðanir á því hvort hlutir muni ganga eftir með einum eða öðrum hætti og það endar oft í pólitískum ágreining. Forsendur frumvarpsins yrðu þá hafnar yfir slíkan ágreining þar sem faglegir aðilar mundu rýna þær. Síðan mundi þingið að sjálfsögðu forgangsraða hvað það vildi setja miklar upphæðir í málaflokka og hvar ætti að skera niður eða bæta við. Að mínu mati væri þetta einn þáttur í að lyfta umræðunni upp á hærra plan. Ég held að það sé mikilvægt að gera það meðan skuldastaða ríkissjóðs er eins og hún er, þ.e. rúmir 1.500 milljarðar og 370 milljarðar í vexti á næstu fjórum árum. Það væri umhugsunarvert að setja skýrar reglur um það hver fjárlagahallinn mætti í raun og veru vera, en þá þurfa fjárlögin auðvitað að vera með þeim hætti að það sé hafið yfir gagnrýni hvað muni ganga eftir í þeim og eins að því verði framfylgt sem snýr að framkvæmd þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég fagna því að hv. þingmaður tekur undir þessi orð mín.

Hv. þingmaður vitnaði til þess þegar við fórum og heimsóttum sænska þingið og fjárlaganefndina þar og farið var yfir vinnubrögðin. Það var mjög lærdómsrík ferð. Þegar við funduðum með fjárlaganefndinni spurði ég þriggja, fjögurra spurninga en þau skildu ekki hvað ég var að spyrja um. Ég var í fyrsta lagi að spyrja hvort þau væru með fjáraukalög. Þau vissu ekki hvað það var. Það sem hv. þingmaður sagði áðan og ég tek undir (Forseti hringir.) er að það er mjög mikilvægt að almenningur hafi trú á því að einstaklingur sem sækist eftir þingsetu sé ábyrgur í fjármálum, eins og er þar, því að annars hlýtur hann ekki kosningu, sama hvar í flokki hann stendur.