141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef nú ýmislegt við hana að athuga samt sem áður. Eitt af því er að hv. þingmaður talaði um að hér væri um kosningafrumvarp að ræða. Mér finnst mikilvægt að benda á að það er ekkert í frumvarpinu sem einkennir venjuleg kosningafrumvörp. Það er ekkert í frumvarpinu sem næsta ríkisstjórn þarf að glíma við og vinda ofan af, eins og oft hefur verið. Í því sambandi má nefna nærtækt dæmi um nokkuð sem við erum að vinda ofan af núna, þ.e. ákvörðun í fjárlögum fyrir árið 2007 þegar ákveðið var að færa hótel og gistiheimili úr 14% virðisaukaskattsþrepi niður í 7% og þá með matvælum og öðrum nauðsynjavörum í því sambandi. Það er gott dæmi um kosningafrumvarp sem þarf síðan að glíma við inn í framtíðina.

Hv. þingmaður talaði um að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur væri á móti fjárfestingum, ef ég skildi hana rétt, og að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiddu til þess að fjárfestingar væru hér minni en ella. Það er staðreynd að fjárfestingum fjölgar mjög mikið nú um stundir og önnur mikilvæg stoð undir hagvöxtinn er fjárfestingar í atvinnurekstri. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem leggur ríka áherslu á fjárfestingu, sem eðlilegt er: Hvað finnst henni þá um fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar? Telur hún ekki að þau verkefni muni ýta undir hagvöxt og fjölga störfum? Hvernig lýsir fjárfestingarstefnan andstöðu ríkisstjórnarinnar við fjárfestingar almennt?