141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Hæstv. fjármálaráðherra tekur fyrir fjárlagafrumvarp 2007 þegar virðisaukaskattur á matvæli var færður niður. Ég tel að það hafi verið verðugt að taka það skref fyrir fólkið í landinu og ég held að sú ráðstöfun hafi skilað fjölskyldum í landinu töluvert miklu og hafi verið til eftirbreytni. Það er skoðun mín að skynsamlegra væri að færa virðisaukaskatt almennt úr 25,5% í til dæmis 14% eða 15% á alla í stað þess að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 7% í 25,5%. En þar erum við ósammála, hæstv. fjármálaráðherra og ég. Ég tel það vænlegri leið vegna þess að það er skoðun mín að lægri skattar almennt skili ríkissjóði auknum tekjum. Það er einfaldlega þannig. En hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn líta ekki þannig á málin vegna þess að oftar en ekki er aukin skattlagning það fyrsta og eina sem þeim dettur í hug til tekjuaukningar.

Mig langar að benda hæstv. fjármálaráðherra á að ef ekki hefði verið fyrir lækkun skatta á fyrri árum hefði ekki verið svigrúm fyrir núverandi hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðherra síðustu ára til að hækka skatta. Við getum svo sem rætt hvort það er betra eða verra.

Virðulegur forseti. Ég tel enn, þrátt fyrir það sem hæstv. fjármálaráðherra segir, að ríkisstjórnin hafi lofað störfum og verkefnum vítt um breitt um landið frá því að hún tók við. Fátt hefur gengið eftir og oftar en ekki er það vegna þess (Forseti hringir.) að hindranir innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar koma í veg fyrir að fjárfesting sé aukin (Forseti hringir.) og atvinnulífið styrkt.