141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel það ljóst að erfitt árferði í löndunum í kringum okkur helst í hendur við margt sem er að gerast hér á landi, en það breytir ekki þeirri staðreynd í mínum huga að ríkisstjórnin sjálf hefur staðið í vegi fyrir æðimörgum fjárfestingum. Um þetta erum við hæstv. fjármálaráðherra einfaldlega ósammála.

Ég tek sem dæmi fjárfestingar á suðvesturhorninu, álverið í Helguvík. Hluti af því er væntanlega orkuöflun og orkukaup (HöskÞ: Bakki á Húsavík.) og orkusala. Við getum nefnt Bakka á Húsavík, það sem menn hafa verið að ræða um. Ríkisstjórnin segir að fjárfestingar séu í pípunum, að margt sé í pípunum og hún hefur lofað störfum alveg frá 2010. En ekkert af því hefur gengið eftir, hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) Það hafa ekki skapast ný störf í landinu. Það kann að vera margt í pípunum og það er vel, það er væntanlega til heilla fyrir íslenska þjóð að öll þau verkefni sem eru í pípunum, hvort heldur þau eru á Suðvesturlandi, Suðurlandi eða á Norðausturlandi, gangi eftir. Ég vona svo sannarlega að svo verði. Um það getum við hæstv. fjármálaráðherra verið sammála, það væri gott ef fjárfestingarnar og verkefnin gengju eftir.

Það hefur hins vegar ekkert verið sýnilegt fram til þessa í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og það er meginmálið. Menn hafa talað hér á hverju hausti um að þetta ætti að efla og þetta ætti að fara í gang en það hefur ekki gengið eftir og þar stendur hnífurinn í kúnni fyrir íslenskt atvinnulíf.