141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga, fyrsta mál á dagskrá hvers þings eins og vanalega, en nú er fyrirkomulagið talsvert öðruvísi en áður hefur verið og gaman að prófa þessa tilraun með að hafa umræðuna í þessu formi. En vegna þess hversu knappur tíminn er ætla ég ekki að eyða honum í að fara yfir forsendur og annað sem búið er að ræða hérna. Mig langar að tala um þetta mjög almennt.

Mig langar til að tala um raunveruleikann í þessu frumvarpi. Hversu raunhæft er frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013? Það lítur ekkert sérstaklega illa út, og eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær í viðtali á Rás 2 og sagði áðan í ræðu sinni er það ágætisárangur að við séum komin með 2,8 milljarða kr. halla fjórum árum eftir hrun. En það sem ég vil gagnrýna og það sem ég vil benda hæstv. fjármálaráðherra á er að það er ekki rétt að setja málin þannig fram þegar það blasir við öllum að ýmsir óvissuþættir eru ekki þarna inni. Suma er kannski erfitt að setja upphæðir á og þeir eru ekki inni í frumvarpinu, en svo eru aðrir óvissuþættir sem eru borðleggjandi og hafa legið fyrir löngu áður en tölunum var lokað í júní eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði.

Við getum nefnt Íbúðalánasjóð. Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sé ekki hægt að setja tölu inn í frumvarpið vegna þess að í júní hafi tölunum verið lokað. Það sé ekki búið að leggja mat á stöðu Íbúðalánasjóðs og hversu miklu þurfi að bæta inn í sjóðinn til þess að hann uppfylli kröfur um 5% eiginfjárhlutfall. Samt sem áður liggur fyrir að í apríl, ef ekki fyrr, gat fjármálaráðuneytið sér þess til að þarna þyrfti 10 milljarða að minnsta kosti. Núna í gær sagði hæstv. fjármálaráðherra í útvarpinu að samkvæmt nýjasta mati væri upphæðin 14 milljarðar og forstjóri Íbúðalánasjóðs sagði á fundi velferðarnefndar að það liti út fyrir að þetta væru 10–14 milljarðar. Samt var ekki hægt að setja töluna inn í fjárlagafrumvarpið. Af hverju ekki? Er það vegna þess að það hefði litið verr út? Já, þá væri hallinn ekki 2,8 milljarðar heldur 12,8 milljarðar. Í mínum huga er þetta eitt lítið dæmi um hluti sem eru ekki þarna inni en hefðu átt að vera það til þess að gefa rétta mynd af stöðu ríkissjóðs.

Á fundinum í gær með Íbúðalánasjóði kom einnig fram, þvert á það sem haldið hefur verið fram og þvert á það sem er rauði þráðurinn í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu og var rauði þráðurinn í ræðum stjórnarliða í gær í umræðum um stefnuræðuna, að vandi heimilanna í landinu er ekki að minnka, hann er því miður að aukast. Vandinn er núna tvenns konar. Hann er að „eldast“, það var orðalagið sem þau notuðu, vandinn er að eldast og vanskilin eru að eldast, þeir sem voru í vanskilum fyrir hrun og rétt eftir hrun eru það enn. En það sem verra er er að nýir einstaklingar eru að koma inn og nýjar fjölskyldur eru að missa húsnæði sitt. Íbúðalánasjóður gerir ráð fyrir því að taka yfir 1.000 íbúðir á næstunni til viðbótar við þær 2.000 sem þeir eru með í fullnustu. Þetta finnst mér ekki vera dæmi um efnahagsstefnu sem hefur virkað, þetta finnst mér ekki vera dæmi um skjaldborg sem hefur virkað. Þetta finnst mér vera dæmi um aðgerðir sem hafa ekki gert neitt til þess að ljúka vandanum heldur hafa þvert á móti ýtt honum á undan sér.

Það sem vantar auðvitað í þetta fjárlagafrumvarp er atvinnustefna, fjárfestingarstefna. Við getum tekið dæmi af einstöku verkefni sem er okkur hæstv. fjármálaráðherra báðum mjög kært, og það eru álversframkvæmdir í Helguvík. (Forseti hringir.) Vonandi sjáum við þær verða að veruleika á næstunni vegna þess að þar, (Forseti hringir.) í stað þess að leita sífellt í vasa skattborgara, værum við að tala um 1 milljarð kr. í skatttekjur fyrir ríkið á mánuði, 12 milljarða á ári, (Forseti hringir.) og það er hægt að lækka skatta fyrir það og borga skuldir.

(Forseti (ÞBack): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)