141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:32]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við förum í þessa umræðu um fjárlög með breyttu fyrirkomulagi þar sem við tökum fyrir hvert efni fyrir sig og fáum tækifæri til að ræða núna velferðarmálin í einn og hálfan tíma. Vonandi mun þetta nýja form sem kom fram sem tillaga við umræðuna í fyrra leiða til þess að umræðan verði meira upplýsandi, gagnlegri og hnitmiðaðri en annars.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því í upphafi að fjárlagafrumvarpið kemur fram núna í byrjun september, þ.e. 11. september, sem þýðir að vinnan við fjárlagagerðina hefur verið fyrr á ferðinni í ráðuneytunum en áður. Það var nánast búið að ljúka og loka öllum liðum í kringum maí/júní á árinu. Þetta þýðir að ýmsar áætlanir sem koma inn í árið liggja ekki endilega fyrir og kalla kannski á einhverjar breytingar í meðförum þingsins. En þá má líka segja að þetta gefi lengri tíma til umræðu í þinginu, þar með betra tóm fyrir þingið til að hafa áhrif á fjárlögin og koma inn í með tillögur og hafa áhrif á fjárlagagerðina.

Ef við förum yfir málefni velferðarráðuneytisins er í áætluninni reiknað með að útgjöld á vegum ráðuneytisins séu 233,6 milljarðar kr. Hækka þessi útgjöld um 5,8 milljarða frá fjárlögum 2012, þ.e. um 2,5%. Það er ástæða til að taka fram að almennt er unnið þannig í fjárlögunum að inn í þau kemur hækkun á launum eða launavísitölu miðað við það sem fyrir liggur og síðan verðlagshækkanir en aðhaldsaðgerðir eftir sem áður á einstökum málaflokkum.

Það dylst engum að velferðarráðuneytið fer með gríðarlega stóran hluta af útgjöldum ríkisins, rúmlega 40% af A-hlutanum og ef maður horfir á útgjaldahliðina eingöngu, utan vaxtakostnaðar, er velferðarráðuneytið með um 48,2% af heildarútgjöldunum. Aðhaldskrafan sem sett var á velferðarráðuneytið og kemur fram í þessum fjárlögum er um 3,2 milljarðar kr. Megnið af þessari aðhaldskröfu, 2,9 milljarðar kr., fellur á tvo málaflokka ráðuneytisins, annars vegar um 700 milljónir á tryggingamálin, þ.e. Sjúkratryggingar Íslands og þá einkum á lyfin. Síðan eru 2,2 milljarðar kr. í atvinnuleysistryggingar, þ.e. í vinnumálin. Þar er fyrst og fremst um að ræða lækkun. Það er að vísu minnkandi atvinnuleysi sem kemur inn í en varðandi aðhaldsaðgerðirnar er í frumvarpinu ekki gert ráð fyrir lengingu á atvinnuleysisbótaréttinum. Samkvæmt lögum er hann þrjú ár en undanfarin ár hefur verið framlengt um eitt ár, þó þannig eins og menn muna að lengingin í fyrra var með sérstökum aðferðum. Farið var í átakið Vinnandi vegur sem skilaði um 1.300 störfum og margir af þeim sem þar komu inn í gegnum fyrirtæki eða sveitarfélög sem réð viðkomandi hafa því verið á bótarétti jafnvel umfram árin fjögur vegna þess að þeir sem komu inn í lok fjórða ársins fengu að minnsta kosti árssamning. Vonandi helst þetta fólk í vinnu, enda var það markmiðið með þessu og margt bendir til að þannig verði það.

Hluti af aðhaldinu er síðan breyting á greiðslum vegna vinnslustöðvunar í fiskvinnslufyrirtækjum. Í áætluninni í ár eru 190 millj. kr. en stefnir í um 350 millj. kr. Hér er gert ráð fyrir að þessu verði breytt með því að afnema þessi lög og ná þannig fram hagræðingu. Hagræðingarkrafa er ekki gerð í rekstri sjúkrahúsa, heilsugæslu, heilbrigðisstofnana og öldrunarþjónustu. Þessar stofnanir fá hækkanir á launavísitölu og verðlagi og þurfa ekki að mæta neinum hagræðingarkröfum, það er sem sagt núll í þeirri áætlun. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt eftir það sem á undan er gengið þar sem menn hafa verið í grimmum aðhaldsaðgerðum og skiptir mjög miklu máli að fá svolítið hlé. Menn geta þá stillt af þessa þjónustu, komið henni betur fyrir og byggt upp áfram.

Bætur almannatrygginga munu samkvæmt þessu frumvarpi hækka um 3,9% en eins og fólk þekkir er gert ráð fyrir því í lögum að hækkun á bótaflokkum miðist annaðhvort við neysluverð eða launavísitölu eftir því hvort er hærra. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er neysluvísitalan hærri og þar með er gert ráð fyrir 3,9% á bótaflokkana.

Það eru atriði í þessu frumvarpi sem þarf að skoða sérstaklega á milli umræðna, m.a. umboðsmann skuldara og Vinnumálastofnun þar sem er um að ræða verulegan samdrátt í rekstri. Umboðsmaður átti að vera kominn yfir kúfinn í sambandi við greiðsluaðlögunina. Margt bendir til að það verði með öðrum hætti en reiknað var með þegar gengið var frá þessu í vor og við munum vonandi koma betur að því í umræðunni. Hið sama gildir um Vinnumálastofnun. Minnkandi atvinnuleysi á auðvitað að minnka umfang Vinnumálastofnunar en nákvæmlega hversu mikið það þarf að ræða.

Eins og ég sagði áðan eru áherslumálin í þessu heilbrigðismálin og almannatryggingarnar þar sem sérstaklega koma fram breytingar á frítekjumarki og tillögur um breytingar á lögum. Það er líka Fæðingarorlofssjóðurinn þar sem reiknað er með því að stíga fyrstu skrefin til að skila til baka skerðingunum sem þar voru gerðar. Það eru barnabætur sem að vísu heyra ekki undir okkur en ef farið verður í barnatryggingar kemur það undir velferðarráðuneytið. Það eru húsnæðisbætur sem hafa verið lagðar fram tillögur um sem þarf að ræða og koma inn. Við höfum líka horft til þess að ná einhverjum takti um tannlækningar barna (Forseti hringir.) þó að það komi ekki inn í fjárlagafrumvarpið og fleira má telja. Ég hlakka til að fá tækifæri til að eiga orðastað við þingmenn í dag þar sem við getum farið yfir einstök þessara mála. Megi þetta form nýtast okkur til að umræðan verði markvissari.