141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:41]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi yfirlýsinguna er rétt sem þar kom fram, þar var einmitt verið að setja í gang réttinn til að fara í hönnun og vinnu á breytingum sem eru mjög mikilvægar til að nýta húsnæði heilbrigðisstofnunarinnar í Stykkishólmi og færa þjónustuna við aldraða saman á einn stað. Framkvæmdafé til þess var sett inn í framkvæmdaáætlun en síðan er óvissa með fjármögnunina á þeim hluta. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það á eftir að útfæra það betur. Undir því var líka viðhald á fleiri stofnunum og áframhaldandi uppbygging á Selfossi svo eitthvað sé nefnt þannig að það sé sagt.

Það sem skorið er niður til framkvæmda þarna í fjárlögunum sjálfum er eingöngu vegna þess að verkefnunum er lokið. Það eru komin verkefni sem hafa klárast og talan lækkar að þessu leyti. En hugmyndin var sem sagt að fara inn í framkvæmdaáætlun. Hv. þingmaður þekkir vel umræðuna sem varð um þann þátt, þá á ég við að það átti að fjármagna ákveðnar framkvæmdir með veiðigjaldi. Það átti að fara í ákveðnar framkvæmdir vegna arðs og greiðslna úr bönkunum og síðan átti að fara í ákveðna hluti vegna uppboðs á leigumarkaði varðandi fiskveiðiheimildir. Það er ákveðin óvissa um þann þátt vegna sjávarútvegsfrumvarpsins þannig að þessi útfærsla bíður enn þá og verður að fara í gegnum umfjöllun í þinginu.

Við deilum þó þeirri skoðun að þarna er um að ræða mikilvæga framkvæmd til þess að breyta hlutverki á heilbrigðisstofnuninni í Stykkishólmi, samþætta þjónustuna á vegum sveitarfélagsins og ríkisins. Þarna hefur náðst mjög góð sátt þannig að það er mjög mikilvægt að setja það verkefni í gang og klára það á næstu árum.