141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sagði sem sagt að það væri óvissa um fjárfestingaráætlunina sem er rétt varðandi tekjurnar. Þó liggur fyrir hvert veiðigjaldið verður, sú upphæð er þekkt, það eru komnar tillögur um hvernig því verður ráðstafað sem auðvitað fer þá í gegnum þingið. Það er mjög mikilvægt að halda til haga að það er verið að greina þarna á milli, að fjárfestingaráætluninni sem er með sértekjum sem geta verið breytilegar eftir afkomu og öðru slíku sé ekki blandað við rekstur, þ.e. að menn séu ekki að þenja reksturinn út á sérstakar gjaldtökur heldur sé hann tekinn út fyrir sviga og farið þá með hann þannig að það sé samhengi á milli þess hversu há veiðigjöld eru og sölutekjur eða arður — það er tekið fram að það geti verið annað hvort eftir því hvort það tekst að selja. Þá hafa menn sérstaklega horft á hluta ríkisins í Arion og Íslandsbanka en ekki í Landsbanka eða sparisjóðunum nema þá í undantekningartilfellum. Það verður þá að koma í ljós.

Þegar þetta liggur fyrir kemur í ljós þetta sjálfsagða samhengi sem við verðum að horfast í augu við þannig að svar mitt við spurningunni um hvort þetta liggi allt saman fyrir er: Nei, en það mun vonandi liggja fyrir núna í meðförum þingsins. Þá getum við tekið höndum saman við að reyna að ná þeim áfanga að tryggja fjármagn í uppbygginguna í Stykkishólmi og á fleiri stöðum eins og við jarðgangagerð og annað slíkt í vinnslu málsins í þinginu.