141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því hve góður árangur hefur náðst við erfiðar aðstæður. Það er í raun ótrúlegt að hugsa til baka þegar við misstum á einni nóttu fimmtung af tekjum okkar í ríkissjóð og þurftum svo þar að auki að bæta á okkur gríðarlegum vaxtakostnaði. Ég verð að viðurkenna að mig hefði ekki órað fyrir því þá, þrátt fyrir aðhaldssamar aðgerðir, að við yrðum komin það langt núna að við værum að ná jöfnuði.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það er gríðarlega mikilvægt að þakka því starfsfólki sem lagt hefur hönd á plóginn og þeim stjórnendum sem leitt hafa þessa vinnu fyrir þann mikla árangur.

Hv. þingmaður kom inn á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu. Ég skal viðurkenna það hreinskilnislega að ekki hafa verið stigin stór skref hvað það varðar. Það er einmitt eitt af því sem þarf að gerast þegar við förum að styrkja svæðisskiptinguna í heilbrigðisþjónustunni og við höfum lagt á það áherslu þegar við höfum verið í viðræðum við sveitarfélög og einstakar stofnanir úti um allt land — menn þurfa að líta á þetta sem samþætta þjónustu. Verið er að vinna að yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaganna. Hún dregst vegna þess að þar þarf að vinna mjög vandaða vinnu. En í gegnum þann málaflokk næst einmitt að flétta saman félags- og heilbrigðisþjónustu.

Varðandi sveigjanlegt tilvísanakerfi þá eru sex starfshópar að vinna í heilbrigðismálunum og einn þeirra er með þjónustustýringuna. Ég á von á skýrslu frá honum innan mjög fárra vikna, kannski eftir tvær til þrjár vikur. Þá koma tillögur um það hvernig hægt er að fara í þessa vinnu og nýta styrkleika sérgreinalæknakerfisins að hluta en þó fyrst og fremst að styrkja heilsugæsluna sem slíka.